Markaðsstjóri Heilsustofnunarinnar í Hveragerði segir engar breytingar verða á geðheilbrigðisþjónustu þó að forstjóranum hafi verið sagt upp. Hann var eini geðlæknirinn sem starfaði á staðnum. Ekki er gerð krafa um geðlækni í samningi stofnunarinnar við Sjúkratryggingar.

Stofnunin hefur tekið á móti skjólstæðingum síðan 1955 og hefur verið með samninga við ríkið í einhvers konar formi síðan 1991, sem eru endurnýjaðir á fimm ára fresti. Og síðan þá hafa allt að 1500 manns sótt sér þjónustu hingað á hverju ári.

Stjórn heilsustofnunarinnar gerði starfslokasamning við Harald Erlendsson, forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga, í lok júní. Stjórnarformaðurinn, Gunnlaugur K. Jónsson, tók við stöðunni tímabundið. Ástæða uppsagnarinnar er ekki opinber.

Engar breytingar gerðar á geðlínunni

Ingi Þór Jónsson, markaðsstjóri stofnunarinnar, segist ekki ræða mál einstakra starfsmanna en fullyrðir að geðheilbrigðisþjónusta verði ekki skert og rýmum verði ekki fækkað.   

„Á síðustu árum hefur streitan, kulnun og fleira, svolítið yfirtekið hluta af, bara eins og í samfélaginu, þannig að þannig höfum við verið að taka breytingum. En varðandi geðmálin, þá er hér starfandi geðteymi sem hefur það verkefni að leiða þá vinnu áfram,” segir hann. Spurður hvort það væri ekki betra að hafa geðlækni í vinnu, þar sem þeir mega ávísa lyfjum og hafa mun meiri réttindi en geðhjúkrunarfræðingar, segir Ingi Þór alveg mega ræða það. „En ég held að við séum í góðum málum. Þegar þessar fréttir bárust tók geðteymið til starfa og nýr starfandi yfirlæknir tók yfir. Það hefur gengið bara gríðarlega vel að sinna þessum málum.”
 
Í samningi Sjúkratrygginga Íslands við heilbrigðisstofnunina er ekki gerð krafa um starfandi geðlækni á staðnum, og hefur forstjóri Sjúkratrygginga staðfest það. Hvorki fyrrverandi forstjóri heilbrigðisstofnunarinnar né forsvarsmenn Geðhjálpar vildu veita viðtal vegna málsins.