„Það er stemmning í andrúmsloftinu,“ segir Snævar Sölvi Sölvason um kvikmynd sína Eden, en þar segir af ungu pari í undirheimum Reykjavíkur.
Þetta er önnur kvikmynd Bolvíkingsins Snævars Sölva í fullri lengd en hann hefur búið í Malmö í Svíþjóð frá því í janúar. „Ég er svona að fjarstýra síðustu skrefunum í eftirvinnslunni, en fór út til að elta kærustuna. Svo er ég að fást við ritstörf, skrifa handrit,“ segir Snævar í viðtali við Mannlega þáttinn. Hans fyrsta mynd, Albatross, kom út árið 2015 og fjallaði um golfvallastarfsmenn í Bolungarvík. „Frá því man eftir mér hefur kvikmyndin heillað mig mjög. Mér hefur alltaf fundist hún það merkilegasta í heimi.“
Hann fetaði hins vegar í byrjun beina brautina í gegnum skólakerfið, kláraði BS-gráðu í fjármálaverkfræði, fékk vinnu í fjármálakerfinu, og var byrjaður í meistaranámi í hugbúnaðarverkfræði – þegar hann fékk nóg. „Ég gat ekki meir, þetta var eins og að reyna að borða sand. Fyrir utan bíóáhugann var ég alltaf listhneigður sem krakki og vildi ég vera að mála og teikna.“ Í háskólanum tók hann þátt í nemendafélaginu þar sem hann sá meðal annars um að gera árshátíðarmyndbönd. „Þar fann ég mig rosalega, skrifa senurnar og samtölin og allt þetta. Þetta var í fyrsta skipti sem ég var ekki óöruggur, eins og þegar ég var í fótbolta og grunnskóla.“
Eftir að Snævar hætti í Háskólanum flutti hann aftur í Bolungarvík og hóf handritsskrif, og skráði sig síðan í leikstjórnarnám í Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012. „Þá var ekki aftur snúið. Þar kynnist ég krökkum með sama áhugamál, og það eru mín árgangssystkini sem gera með mér Albatross,“ segir Snævar sem gerði myndina fyrir mjög lítið fé. „Ég ákvað að gera mynd í Bolungarvík því ég vissi að ég gæti fengið hluti ókeypis þar. Ég lét hana gerast á golfvelli því ég hafði ekki efni á leikmynd, en náttúran er náttúrulega mjög flott leikmynd.“ Hann hópfjármagnaði síðan hluta af eftirvinnslu myndarinnar og segist hafa verið fyrstur íslenskra kvikmyndargerðarmanna til að nýta sér þá aðferð.
Í nýju myndinni Eden segir af parinu parinu Lóu og Óliver sem framfleyta sér með fíkniefnasölu en þrá ekkert heitar en að elta drauma sína. Þegar þau lenda upp á kant við undirheimaöflin ákveða þau að taka málin í sínar hendur og hefst þá barátta upp á líf og dauða. „Það er samt alveg stemmning í andrúmsloftinu, ekki dauði, djöfull og drungi allan tímann,“ segir Snævar en myndin var tekin upp í tveimur hollum í fyrra og hitteðfyrra. „Það er verið að hljóðvinna hana núna, en er að öðru leyti að mestu leiti tilbúin. Við verðum í Smárabíó, forsýnd 9. maí.“ Snævar er að sækja um styrk til Kvikmyndasjóðs fyrir eftirvinnslu á myndinni, en hann telur mikilvægt að styðja meira við bakið á ungu og óreyndu kvikmyndagerðafólki. „Þannig að flóran verði litrík. Annars er svo mikil hætta á því ef það eru fáir stórir styrkir að myndirnar verði einsleitar,“ segir Snævar að lokum.
Gunnar Hansson ræddi við Snævar Sölva Sölvason í Mannlega þættinum. Jelena Schally er höfundur myndar í haus færslu.