Nýjasta kvikmynd Quentins Tarantino, Once Upon a Time in Hollywood, verður frumsýnd á Íslandi í vikunni. Hún fjallar um atburði sem gerðust fyrir sléttum fimmtíu árum. Arnmundur Ernst Bachman segir myndina ekki beint í anda Tarantino þó í henni séu sterk höfundareinkenni.

Það telst ávallt til tíðinda þegar ný mynd frá leikstjóranum Quentin Tarantino ratar í kvikmyndahús. Once Upon a Time in Hollywood er níunda mynd leikstjórans en hann hefur þó tekið þátt í gerð fjölda annarra kvikmynda sem höfundur, framleiðandi eða leikstjóri. Hans þekktustu myndir eru meðal annarra Reservoir Dogs, Pulp Fiction, Kill Bill og Django Unchained. Kvikmyndin Once Upon a Time in Hollywood fjallar um útbrunninn leikara í Hollywood og áhættuleikara hans. Samhliða sögu þeirra kynnumst við leikkonunni Sharon Tate. Hún var fyrirsæta og leikkona á sjöunda áratug síðustu aldar, var eiginkona leikstjórans Romans Polanski og tengist nafn hennar voveiflegum atburðum sem áttu sér stað árið 1969.

„Þetta var algjör leikaraveisla, þarna var Al Pacino líka og ástralska leikkonan Margot Robbie. Alveg yndislega flott leikkona og maður fyllist alltaf samkennd þegar maður fylgist með henni,“ segir Arnmundur Ernst Bachman sem sá forsýningu á myndinni á fimmtudagsköldið. Þá voru einmitt fimmtíu ár frá því að hrottaleg morð voru framin á leikkonunni Sharon Tate og vinum hennar. Morðingjarnir voru gengi undir stjórn Charles Mansons. „Ég kom reglulega sáttur frá þessari kvikmyndareynslu, þetta er kannski ekki alveg í anda þeirra mynda sem maður hefur séð frá Tarantino en hún ber þónokkur einkenni hans sem leikstjóra. Þetta er hæg mynd, hún leyfir sér að dvelja lengi í kringumstæðum og leyfir tilfinningalegu ástandi persóna að anda vel,“ segir Arnmundur. 

Once Upon a Time in Hollywood er lauslega byggð á þekktum bransasögum úr Hollywood og sameinar raunveruleika og skáldskap með nýstárlegum hætti. „Við fylgjumst þarna með leikara og staðgengli hans. Leikarinn er aðallega í þessum gömlu vestrum, þar sem allt snýst um one-linera, að yggla brúnirnar og vera dálítið kúl. Það sem mér fannst einstaklega gaman að fylgjast með hjá þessum leikarakarakter var að Tarantino leyfir honum að vera svo grunnum og ofboðslega hégómafullum. Hann hefur alltaf bölvaðar áhyggjur af ferlinum sínum. Á svipstundu fór hann frá því að vera núll og nix, sjálfsmyndin alveg í rúst, yfir í það að vera með vindinn upp í nefið,“ segir Arnmundur um persónusköpun aðalsöguhetjunnar Ricks Dalton sem Leonardo DiCaprio leikur.  

„Allt á sér þetta fyrirmynd í atburðum sem áttu sér stað í Bandaríkjunum árið 1969. Charles Manson-morðin. Ég áttaði mig ekki á því að þetta væri bein tilvísun, þarna væru bara persónur sem voru fórnarlömb þessa manns, fyrr en um miðbik myndarinnar. Það er mjög gott að vita af þessu áður en þú stígur inn í kvikmyndahúsið,“ bendir Arnmundur á en umfjöllun Tarantinos um téða atburði hefur vakið mikla eftirtekt. „Við fylgjumst svo með Rick Dalton, leikaranum og áhættuleikara hans, sem leiknir eru af DiCaprio og Brad Pitt. Þeir eru stórkostlegir í því sem þeir gera. Við fylgjum eiginlega tveimur sögum, sögu Sharon Tate og svo sögunni af þeim tveimur. Einhvern veginn tvinnast þetta svo saman,“ segir Arnmundur sem fór brosandi út af sýningu nýjustu kvikmyndar Quentins Tarantinos. 

Kvikmyndarýni Arnmundar í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 má heyra með því að smella á myndina efst.