„Það er hægt að gera fyndnari hluti með stóru yfirdrifnu kjólana og miklu hárkollurnar en fólk í jakkafötum og dragt,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri um nýja en klassíska uppfærslu á Brúðkaupi Fígarós sem verður á fjölum Þjóðleikhússins í haust.

Brúðkaup Fígarós eftir Mozart verður frumsýnt í september í Þjóðleikhúsinu í uppfærslu Íslensku óperunnar og er undirbúningur í fullum gangi. Óperustjórinn Steinunn Birna Ragnarsdóttir segir að þó að verkið sé gamanópera séu undirliggjandi áleitnar spurningar í því sem eigi vel við í dag. Umfjöllunarefnið er klassískt og tímalaust: ást, hjónaband og stéttaskipting.

Forréttindablindan

„Það er alltaf verið að fjalla um ást í einhverri útgáfu með flækjum sem henni stundum fylgja. Undirliggjandi spurningin í verkinu er í raun er hægt að bæta það sem hefur brotnað? Hvað kemur fyrir fólk ef það hefur ekki heilindi að leiðarljósi. Svo verða spurningarnar fleiri eins og: Hvernig verða forréttindi til? Sumir myndu segja að blessunarlega hafi samfélag okkar ekki verið stéttaskipt í gegnum tíðina en við þekkjum þó öll fólk sem finnst það eiga rétt á forréttindum sínum af því bara,“ segir Steinunn. „Sú stéttaskipting sem er til staðar í þessu verki er ekki falin, henni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hvað veldur og hvaða þýðingu fólk hefur þegar fólki finnst það merkilegra en annað.“

Ópera, minnir Steinunn á, er sungið leikhús og verður líkt og annað leikhús að vera í stöðugu samtali við samtímann, hvort sem verkin eru gömul eða ný. „Auðvitað er auðveldara að eiga í þessu samtali í nýju leikhúsi, það er meiri áskorun með gömlu verkin að tengja þau við samtímann. Við erum að reyna að gera það í þessari uppfærslu og leiksjórinn, John Ramster, er ótrúlega reyndur í því.“

Fólk vill heyra það sem það þekkir

Tónlistin í verkinu er einnig tímalaus og hana þekkja flestallir óperuunnendur sem margir koma til að heyra hana, enda Brúðkaup Fígarós að margra mati eitt fallegasta verk Mozarts. Tónlistin hefur þó heyrst víðar án sérstakrar tengingar við verkið en Aría Fígarós er til dæmis vinsælt auglýsingastef sem allir þekkja. Jafnvel fólk sem ekki er vant því að fara á óperur getur því notið þess að fara á þessa því það þekkja lögin. „Fólki líður oft betur að kannast við tónlistina því það er alltaf gaman að hitta gamla vini sem þau hafa heyrt í öðru samhengi. Það færir fólk nær verkinu og það verður opnara fyrir forminu,“ segir hún en viðurkennir að líkt og önnur listform sé ópera ekki fyrir alla.

Gömul ópera með nútímalegri skírskotun

Steinunn segir að í nýrri uppfærslum sé algengast að verkið sé fært yfir í nútímann en þau geri það ekki þó þau séu með óvænta nálgun. „Ég vil ekki spilla of miklu en við förum óhefðbundnar leiðir miðað við það sem oftast er gert. Það er hægt að gera fyndnari hluti með stóru yfirdrifnu kjólana og miklu hárkollurnar en fólk í jakkafötum og dragt. Þetta er samt ekki alveg eftir bókinni, við leikum okkur mikið með útfærsluna.“

Óperan er í grunnin farsakennd og söguþráðurinn snúinn. Í dag gerir fólk þó öðruvísi kröfur til fyndni en áður var og Steinunn segir mikilvægt að taka mið af því. „Hún þarf að vera vel útfærð með innihaldi. Þessi froðufarsi sem var við lýði í gamla daga gengur ekki í dag.“ Hún segir að þó það liggi beint við að færa óperuna í nútímann, láta til dæmis alla klæðast jakkafötum og söguna gerast í Trump-turninum hafi þau verið sammála um að fara alls ekki þá leið. „Mér finnst mikilvægt að nálgast söguna fallega í því samhengi sem hún kemur fyrir. Það er hins vegar ekki æskilegt að sviðsetja þessar gömlu óperur eins og það sé verið á safni, þær verða að hafa eitthvað sem kemur á óvart, nútímalega skírskotun og óvæntar vendingar.“

Aðspurð segir Steinunn Birna ekki annað hægt en að hafa samúð með sjálfu Fígaró, með öllum hans breyskleika og sjálfumgleði. „Auðvitað þykir manni vænt um þessar persónur þó þær séu gallaðar.“

Gunnar Hansson og Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddu við Steinunni Birnu Ragnarsdóttur í Mannlega þættinum og er hægt að hlusta á viðtalið allt með því að smella á myndina efst í fréttinni.