Það leikur enginn vafi á bótaskyldu íslenska ríkisins gagnvart sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður aðstandenda Tryggva Rúnars Leifssonar. Tryggvi var einn þeirra sem voru dæmdir í málinu á sínum tíma en síðar sýknaðir. Páll furðar sig á því að ríkislögmaður segi Guðjón Skarphéðinsson bera sök á eigin sakfellingu. „Fólk verður ekki gert ábyrgt fyrir yfirlýsingum sem það hefur uppi á þeim tíma þegar verið er að pynta það.“

Viðræður um skaðabætur hafa gengið treglega og fyrir helgi skilaði ríkislögmaður inn greinargerð vegna fyrirsjáanlegra dómsmála. Þar hafnaði hann bótaskyldu ríkisins vegna máls Guðjóns Skarphéðinssonar, sem var sakfelldur og síðar sýknaður í málinu.

Páll Rúnar segir alveg ljóst að ríkið sé skaðabótaskylt vegna þeirra sem voru sakfelldir í Guðmundar- og Geirfinnsmálum en síðar sýknaðir við endurupptöku málsins. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2. Páll hafnar rökum ríkislögmanns. „Þá er búið að dæma um þetta allt í svokölluðu Vegas-máli. Þar er þessum sömu sjónarmiðum haldið fram og hafnað af dómara. Þeim dómi ákveður íslenska ríkið að áfrýja ekki. Það þýðir það eitt að íslenska ríkið er bundið af niðurstöðunni. Það getur ekki látið annan borgara njóta annars og lakari réttar en þar um ræðir.“

Í greinargerð ríkislögmanns er bótaskyldu vegna Guðjóns hafnað með þeim rökum að hann beri sjálfur að hluta ábyrgð á sakfellingu sinni. Páll Rúnar segir að slíkum rökum hafi ekki enn verið haldið fram gegn sínum umbjóðanda. „Fólk verður ekki gert ábyrgt fyrir yfirlýsingum sem það hefur uppi á þeim tíma þegar verið er að pynta það.“

„Það er alveg ljóst að þessir einstaklingar sem þarna um ræðir eru þolendur, þeir eru ekki gerendur. Þeir eiga enga sök á því hvernig fer,“ segir Páll. „Tryggvi Rúnar Leifsson er í einangrun í meira en 600 daga. Honum er haldið vakandi fyrstu dagana og hann tekur einangruninni mjög illa, sem eðlilegt er. Hann er sprautaður með óþekktum lyfjum. Hann er beittur kerfisbundnu og viðvarandi harðræði af fangavörðum og rannsakendum. Hann er niðurlægður. Hann er beittur þvingunum og hótunum. Hann sætir illri og löglausri meðferð á gæsluvarðhaldstímanum. Hann fær engar heimsóknir. Hann fær nær engan útivistartíma. Að endingu er hann sviptur frelsi sínu ranglega á þriðja þúsund daga. Það er ljóst að enginn maður þolir slíkar þjáningar án þess að verða fyrir stórfelldu og varanlegu tjóni bæði á líkama og sál. Á þessu á hann enga sök, ekki eina einustu.“