Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, segir ekki hægt að fría sig ábyrgð með því að segja að reglurnar séu „bara svona.“ Reglur séu mannanna verk. Ríkisstjórnin beri ábyrgð á brottvísun albanskrar konu sem komin er rúmar 35 vikur á leið. Konunni var vísað úr landi þrátt fyrir að fram kæmi í vottorði frá mæðravernd Landspítalans að það væri óráðlegt. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vísaði því á bug að ríkisstjórnin beri ábyrgð á málinu.

Menn eigi að hafa manndóm í sér til að breyta reglunum

„Ef reglurnar leiða til þessarar niðurstöðu eiga menn að minnsta kosti að hafa manndóm í sér til þess að segja „förum í að breyta reglunum, en ekki segja þetta er bara svona, hefur alltaf verið svona og það ber enginn ábyrgð“,“ sagði Jón Steindór í Morgunútvarpi Rásar 2. 

„Auðvitað fara menn alltaf í eitthvað pólitískt uppnám í öllum svona málum og ekkert við því að gera. En að ríkisstjórnarflokkarnir beri eitthvað ábyrgð á þessu, ég er ekki að kaupa það,“ sagði Brynjar. Uppnámið breyti ekki niðurstöðunni. Hægt sé að ræða reglurnar sjálfar. Pólitíkin ráði svo hverju sinni hvernig fólk vilji haga þeim.

Mannúðina skorti

Nokkrum vikum áður en konunni var vísað úr landi hafði hún fengið vottorð frá heilsugæslulækni um að hún mætti fara í flug. Konan leitaði svo á mæðravernd Landspítalans í fyrrakvöld vegna blóðnasa og fékk þar nýtt læknisvottorð, þar sem segir að hún þjáist af stoðkerfisverkjum í baki og eigi erfitt með langt flug. Almennt mælir mæðravernd gegn því að þungaðar konur í viðkvæmri stöðu, sem komnar eru langt á leið, fljúgi.

„Hvar er mannúðin, hvar er mennskan í þessu kerfi?“ spyr Jón Steindór. Mikilvægast sé að reglum sé framfylgt af mannúðarsjónarmiðum. „Um það snýst það. Það þýðir ekkert að segja að það var gefið út eitthvert vottorð einhvern tímann um að konan væri fit to fly. Hún var það bara ekkert á þessari stundu.“ 

Á öndverðum meiði um hvort málið kalli fram breytingar

Settur forstjóri Útlendingastofnunar sagði í Kastljósi í gær að öllum settum reglum hafi verið fylgt af hálfu stofnunarinnar. Landlæknir kannar nú málið, sem litið er alvarlegum augum hjá embættinu. Þá hefur dómsmálaráðherra óskað eftir upplýsingum um það. Hún féllst þó á skýringar Útlendingastofnunar.

Brynjar og Jón Steindór voru ósammála um hvort málið myndi leiða til breytinga á reglum eða stefnu í málaflokknum. Brynjar taldi að þetta ákveðna tilvik kallaði ekki á endurmat og breytingar á löggjöf. Jón Steindór sagðist hins vegar vonast til þess að málið yrði til þess að breytingar ættu sér stað. Hann þyrði þó ekki að treysta á það. Málið verður áfram rætt í þinginu.