Auðvitað er ég reið, segir fjölfötluð kona sem krefst þess að sveitarfélög hraði innleiðingu NPA-reglugerðarinnar, sem samþykkt var fyrir hálfu ári. Framkvæmdastjóri NPA-miðstöðvarinnar gagnrýnir hægagang í innleiðingu reglugerðarinnar.
Notendastýrð persónuleg aðstoð eða NPA var lögfest síðasta vor og útfærð með reglugerð í lok árs. Í henni segir að sveitarfélög beri ábyrgð á gerð og framkvæmd NPA-samninga. Það er því tæpt hálft ár síðan þau áttu að vera búin að formfesta þjónustuna.
„Sveitarfélög eru misjafnlega langt komin með að innleiða ákvæði reglugerðarinnar um tiltekin mál en heilt yfir myndi ég segja að það væru mikil vonbrigði hversu skammt við erum komin með að innleiða þessa framkvæmd," segir Hjörtur Örn Eysteinsson, framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar.
Ásta Dís Ástráðsdóttir er fjölfötluð og þarf aðstoð allan sólarhringinn. Hún á heima í Kópavogi, sem er eitt sveitarfélaganna sem er ekki búið að aðlaga NPA reglugerðina að sínum kerfum. Ásta Dís segist hafa ýtt á eftir því síðan hún var samþykkt.
Hverju myndi þesii reglugerð breyta fyrir þig? „Meira fjármagn. Og að þau fari eftir kjarasamningum," segir Ásta Dís.
„Þeir sem eru í viðkvæmustu stöðunni eru þeir sem eru með stærstu samningana, einstaklingar sem þurfa aðstoð allan sólarhringinn. Þeir erfitt með að bregðast við því þegar fjármagn er ekki nógu mikið," segir Hjörtur Örn jafnframt.
„Auðvitað er ég smá reið"
Lögfræðingur Ástu Dísar hefur sett Kópavogsbæ kröfur um að hún fái auka fjármagn til að greiða t.d. kjarasamningsbundin laun og orlofsuppbót. Sem hún á rétt á samkvæmt reglugerðinni. „Mig vantar 471 þúsund fyrir næstu mánaðamót," segir Ásta Dís.
„Það er mikið réttindamál og í rauninni ólögmætt fyrir sveitarfélög að ganga fram með þeim hætti og hunsa þessi réttindi. Það eru farin nokkur kærumál af stað þar sem að notendur vilja láta reyna á þessi réttindi," segir Hjörtur Örn.
Forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa sagt að ferlið við að innleiða NPA-lögin sé flókið. Það skapaðist millibilsástand á milli þess að lögin voru samþykkt og síðan reglugerðin. Þeir hafa óskað eftir handbók um þjónustuna sem nú er tilbúin. Af heildarkostnaði við aðstoðina greiði viðkomandi sveitarfélag 75% og ríkið 25%. „Það er ekkert sem réttlætir þessa seinkun. Þeim ber skylda samkvæmt reglugerðinni að taka upp þessa framkvæmd sem hún kveður á um," segir Hjörtur.
„Auðvitað er ég smá reið. En ég er með mikið æðruleysi," segir Ásta Dís.