Heimildamyndahátíðin Skjaldborg verður haldin í 13. sinn 7.-10. júní á Patreksfirði. Meðal efnistaka á hátíðinni í ár er leitin að ástinni, listaverkastuldur, pólskir verkamenn og þvottahús í fjölbýli. Metaðsókn er á hátíðina og innsendar myndir hafa aldrei verið fleiri, svo það stefnir í allsherjarbíóbræðingsveislu.

Á hátíðinni um helgina verður lagt upp með að bera jafna virðingu fyrir hinu smáa, hinu stóra, hinu skrýtna og hinu fokdýra. Það er því óhætt að segja að dagskráin sé fjölbreytt. Í ár bárust fleiri umsóknir en nokkru sinni fyrr og þurftu forsvarsmenn hátíðarinnar að vísa mörgum frambærilegum myndum frá. Árlega eru veitt verðlaun á hátíðinni, áhorfendaverðlaunin Einarinn og dómnefndarverðlaunin Ljóskastarinn en dómnefndina í ár skipa Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstjóri og einn stofnenda hátíðarinnar, Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur og tónskáld og Anna Þóra Steinþórsdóttir leikstjóri og tvöfaldur sigurvegari Skjaldborgar 2018.

Helga Rakel Rafnsdóttir, önnur af tveimur framkvæmdastýrum hátíðarinnar, og Janus Bragi Jakobsson starfsmaður og fyrrverandi stjórnandi ræddu um hátíðina sem hefst á föstudaginn á Patreksfirði.

„Það er til marks um mikla grósku í íslenskri heimildamyndagerð að svo margar myndir hafi sótt um en þær sem komust inn eru allt mjög frambærilegar myndir eftir kanónur í íslenskri heimildamyndagerð. Staðan er góð og nokkuð gott og bjart fram undan,“ segir Helga Rakel um aukinn áhuga á þátttöku á hátíðinni. 

„Ég held að núna þegar aðsóknin er orðin svona mikil og við þurfum að hafna fjölda mynda þá hafi myndast ákveðið aðhald. Fólk þarf að spýta í lófana og gera ennþá betri myndir,“ segir Helga. „Það þarf að vera eitthvað sem virkar því við erum ekki lengur að taka inn myndir til að fylla upp í dagskrána eða neitt svoleiðis. Það er slegist um að komast að.“

Ógleymanlegt að sýna í fyrsta sinn á hátíðinni

Helga segir að margir kvikmyndagerðamenn hafi stigið sín fyrstu skref á hátíðinni og uppgötvað töfrana sem felast í því að búa eitthvað til og miðla því og sýna fyrir fullum sal. „Ég gleymi aldrei augnablikinu þegar við frumsýndum mína fyrstu mynd á Skjaldborg,“ segir hún.

„Þegar ég var að byrja fyrir átta árum fannst mér markmiðið helst vera að fylla dagskránna og reyna að fá helstu og bestu breiddina,“ segir Janus. „En þó að gæðin séu orðin meiri er enn markmiðið, og hefur frá byrjun þegar fyrsta hátíðin var sett, að það ætti að vera pláss fyrir alls konar myndir, líka til dæmis þær sem eru teknar upp á síma.“

Helga tekur undir þetta og segir mikilvægt að hátíðin sé enn vettvangur fyrir ólíkar myndir. „Ef þessi hátíð er laus við eitthvað þá er það snobb. Snobb myndi alveg drepa þessa hátíð. Andstæðan við snobb er einmitt kannski nánd en það er mikil nánd sem myndast þessa helgi, mikil samræða og samvera. Við borðum saman, dönsum saman, horfum á myndir saman, sitjum úti í sólinni saman, við förum í sund saman.“

Heiðursgestur hátíðarinnar frá Lettlandi

Laila Pakalnina er heiðursgestur hátíðarinnar í ár en hún er margverðlaunuð kvikmyndagerðakona og býr í Riga í Lettlandi. „Hún kom hingað á RIFF í haust og við vorum smá svekkt að sjá að þau hefðu nælt sér í hana fyrst. Hún er hins vegar bara þannig listamaður að maður fær ekki nóg af henni. Hún er rosalega skemmtileg og myndirnar hennar sömuleiðis. Stundum er talað um hana sem Kaurismaki heimildamyndagerðar og hún sannar svolítið þá kenningu að það er hægt að gera mynd um allt ef þú bara finnur réttu efnistökin.“

Á hátíðinni í ár verða pallborðsumræður sem Janus kemur til með að stýra, þar sem meðal annars velt verður vöngum yfir stöðu íslenskrar heimildarmyndagerðar. „Mér hefur stundum þótt vanta upp á það í heimildarmyndagerð að við stígum skrefi lengra varðandi það að gera myndirnar eitthvað annað en bara myndir um einhverja eina hugmynd  eða eina persónu,“ segir Janus.

Heimildarmyndagerð er eins og bogfimi

„Ég er með mastersgráðu í þróun heimildarmynda og í mínu námi var ég með kennara sem bjó mikið í Kína og talaði mikið um bogfimi. Það að gera heimildarmynd snýst að miklu leyti um undirbúninginn, rétt eins og þegar þú skýtur af boga. Þú þarft að stilla þér upp, þú þarft að miða, einbeita þér, vera búinn að læra allt sem þú þarft að læra og svo skýturðu. Það er minnsta málið,“ segir Helga. „Listræn heimildamynd, ef þú gerir hana vel, þá færðu fólk með þér í lið. Það er mikilvægt í heimildarmyndagerð að læra að segja nei. Hafi maður ekki gert rétt, spennt bogann og miðað þá endar maður langt frá marki,“ segir Helga.

Rætt var við Helgu Rakel og Janus í Lesinni og innslagið má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.