Elíza Reid forsetafrú hrindir herferðinni Ljósvinir af stað í dag. Endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðin Ljósið stendur að herferðinni en þar geta þeir sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra fengið aðstoð og stuðning fagfólks.
„Það er ekkert í lífinu sem býr þig undir það að greinast með krabbamein. Ljósið veitir hins vegar von,“ er haft eftir Ernu Magnúsdóttur, stofnandi og forstöðumaður Ljóssins, í fréttatilkynningu um herferðina Ljósvini.
Með herferðinni birtir Ljósið viðtöl við fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.
Ljósið var stofnað með það að markmiði að hjálpa fólki sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendum þeirra. Þar fæst sérhæfð endurhæfing og stuðningur. Fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt, andlegt og félagslegt þrek.
Hundruð einstaklinga leita til Ljóssins í hverjum mánuði en þjónustan er rekin fyrir sjálfsaflafé, stuðningi frá almenningi, félagasamtökum og fyrirtækjum. Ljósið var stofnað árið 2006 eftir að þjónustan hafði verið starfrækt sem tilraunaverkefni og svo síðar sem göngudeild á Landspítalanum.
Á myndbandinu hér að ofan má sjá brot úr viðtölunum sem dreift verður á samfélagsmiðlum Ljóssins á næstu dögum. Elíza Reid ýtir herferðinni af stað í húsakynnum Ljóssins við Langholtsveg í dag klukkan 15:30.