Jazzhátíð Reykjavíkur, sem hefst í dag og stendur fram á sunnudag, er að hluta til uppskeruhátíð íslenskra jazztónlistarmanna og nýta margir tækifærið til að senda frá sér nýja tónlist og plötur. Ein þeirra er ung söngkona, Silva Þórðardóttir, sem sendir frá sér plötu með bandarískum jazz-standördum en platan heitir eftir einu laganna á plötunni Skylark. Rætt var við Silvu í Víðsjá á Rás 1. 

Stórafmæli

Jazzhátíð Reykjavíkur hefst í dag. Þetta er í þrítugasta sinn sem hátíðin er haldin en henni lýkur á sunnudag. Tónleikar fara fram víða um borgina og jazzpassar í boði bæði á hátíðina alla og á einstök tónleikakvöld, auk þess sem boðið er upp á fría viðburði.

„Ég syng aðallega standarda,“ segir Silva Þórðardóttir sem kemur fram á hátíðinni. „Og á þessari fyrstu plötu minni, Skylark, eru sjö slíkir, allir mjög fallegir, falleg ljóð og lög.“

Hún segir að jazzsöngurinn hafi komið skyndilega inn í líf hennar fyrir alvöru þó ekki eigi hún langt að sækja áhugann á þessari tónlist. „Ég var á fyrsta ári í Menntó og þá grunaði mig að ég gæti nú eitthvað sungið en var samt ekki alveg viss. Ég var eitthvað að reyna að sannfæra pabba um að ég gæti þetta. Síðan fór ég námskeið hjá Margréti Eir í söng og eftir það sótti ég um í FÍH, aðallega upp á flippið, komst inn og er búin að vera að syngja síðan þá.“ Nefna má að faðir Silvu er Þórður Högnason bassaleikari sem leikið hefur jazz um árabil og er einnig í kvartetti dóttur sinnar ásamt Magnúsi Tryggvasyni Elíassen sem leikur á trommur og Önnu Grétu Sigurðardóttur píanóleikara.