24 marka drengur sem kom í heiminn á Landspítalanum á nýársnótt er eitt stærsta barn sem fæðst hefur hér á landi undanfarin ár. Faðirinn segir móðurina kraftaverkakonu, en bæði systkini drengsins vógu yfir tuttugu merkur við fæðingu.

Emil Rafn Stefánsson fæddist á nýársnótt og var fyrsta barn ársins. Drengurinn var engin smásmíði en við fæðingu mældist hann 59 sentímetrar að lengd og tæp 6 kíló, eða 24 merkur. Meðalþyngd íslenskra barna hefur verið í kringum 3600g, tæpar 15 merkur, og meðallengd um 50 sentímetrar.

Eitt til tvö börn á ári mælast 22 merkur við fæðingu, en sjaldgæft er að börn séu stærri en það. Samkvæmt upplýsingum frá fæðingarskráningu Landspítalans hefur eitt barn fæðst á síðustu fimm árum sem var nokkurn veginn jafn stórt og Emil, en á síðustu 30 árum hafa fæðst tvö börn sem voru örlítið stærri.

„Þetta er kraftaverkakona. Þetta ferli er alltaf kraftaverk en hún er hérna uppi, eða eins langt og maður kemst bara,“ segir Stefán Halldór Jónsson, faðir Emils.

Þakklát vökudeildinni

Þó að fæðingin hafi gengið vel tók hún nokkuð á drenginn sem fékk vatn í lungun og þurfti að dvelja á vökudeild í nokkra daga, áður en hann fór heim með foreldrum sínum. 

„Þau á vökudeildinni eru bara algjört ofurfólk og við gætum ekki verið þakklátari fyrrir allt sem þau gerðu fyrir hann og okkur,“  segir Berglind Bjarnadóttir, móðir Emils.

Stór börn í fjölskyldunni

Jón, föðurafi Emils, var 24 merkur við fæðingu en stór börn virðast algeng í fjölskyldunni. 

„Við bjuggumst alveg við því að hann yrði svona stór líka. Stelpan okkar var 20 merkur, hún er sex ára, og strákurinn okkar eins og hálfs árs, var 22 og hálf mörk. Þannig þessi náði bara alveg að toppa þau,“ segir Berglind. 

Hyggja ekki á frekari barneignir

„Ljósmóðirin sem tók á móti honum sagðist vera búin að ganga á samstarfsfólk sitt og það kannaðist enginn við að hafa tekið á móti svona stóru barni. Þetta var ótrúlegt kraftaverk að koma þessu barni í heiminn og ég gæti ekki verið stoltari,“ segir Stefán Halldór.

En ætli frekari barneignir séu á dagskrá hjá fjölskyldunni?

„Ehm, nei. Miðað við þessa línulegu þróun í stærð þá held ég að við séum bara nokkuð góð í bili. Þetta tókst allt saman vel,“ segir Berglind.