Hong Kong er eins og púðurtunna og einföld lausn á flókinni stöðu ekki í sjónmáli segir Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands. Vaxandi spennu í Hong Kong megÍ allt sumar hafa borist fregnir af mótmælum í Hong Kong. Hundruð þúsunda, jafnvel milljónir hafa mótmælt þar helgi eftir helgi. Hátt í þúsund manns hafa verið handtekin og nýega voru nokkrir forsprakkar mótmælanna og framámenn í stjórnmálaflokknum Demosisto handteknir. Þeirra á meðal Joshua Wong og Agnes Chow.
Þau eru bæði tuttugu og tveggja ára og þeim er gefið að sök að hafa hvatt til ólöglegra samkoma fyrr í sumar. Þeim Chow og Wong var sleppt úr haldi og rétta á yfir þeim í nóvember. :au áttu mikinn þátt í mótmælum ungs fólks í Hong Kong fyrir fimm árum, sem kennd hafa verið við regnhlífar því mótmælendur notuðu þær til að skýla sér fyrir piparúða lögreglu. Wong var fangelsaður fyrir þátt sinn þá og losnaði í sumarbyrjun. Hvorugt þeirra hefur verið áberandi í mótmælunum í sumar. Mótmælendur nú hafa að sögn engan ákveðinn leiðtoga, heldur hafa sprottið fram úr mörgum hópum á samfélagsmiðlum.+
Umdeilt framsalsfrumvarp
Kveikja mótmælanna í ár er umdeilt frumvarp um framsal fanga frá Hong Kong til meginlands Kína. Frumvarp sem er talið ólíklegt að verði að lögum en hefur ekki verið dregið formlega til baka. Og eftir því sem mótmælin dragast á langinn verður erfiðara að sjá hvernig hægt verður að lægja öldur ósættis og reiði.
Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands segir að helst óttist menn að kínverski herinn grípi inni í. En líka gæti svo farið að mótmælendur sem vilja ögra hernum, því það sé eina leiðin til að fá athygli heimsins og stuðning við sjálfstæði Hong Kong.
Sjálfstæði ekki í augsýn
Sjálfstæði Hong Kong telur Geir hins vegar afar ólíklegt í fyrirsjáanlegri framtíð. Í Kína sé vaxandi þjóðernisstefna og kommúnistaflokkurinn megi ekki missa tökin í Hong Kong, því það myndi veikja svo stöðu hans í Kína. Engar líkur séu á því að valdamenn í kommúnistaflokknum ljái einu sinni máls á því að auka sjálfsstjórn og rétttindi í Hong Kong.
Eitt ríki - tvö kerfi
Í rúm tuttugu ár hafa menn starfað eftir því að samband Hong Kong og Kína byggist á því að þar sé eitt ríki-tvö kerfi. Í því fólst að íbúar í Hong Kong og reyndar Macao nytu áfram í 50 ár þeirra réttinda sem þeir höfðu undir stjórn Breta, málfrelsi, prentfrelsi og frelsi til að mótmæla.Sú skoðun er útbreidd meðal Hong Kong búa að þetta hafi ekki gengið eftir og í stað þess að ekki sé hróflað við þessum réttindum hafi orðið nærri 70% aðlögun að kerfi Kína og það séu menn ekki ánægðir með.
Alræðistilburðir í Kína
Á undanförnum árum hafi margt breyst í Kína segir Geir og þar gæti meiri alræðis og einræðistilburða en áður var og það hafi sitt að segja. Munurinn á því sem fólk í Hong Kong væntir og veruleikans í Kína sé orðinn meiri en áður var.
Lam milli steins og sleggju
Fréttastofan Reuters birti nýlega frétt um að stjórnvöld í Peking hefðu í sumar hafnað öllum tilllögum Carrie Lam, leiðtoga heimastjórnarinnar í Hong Kong um hvernig mætti ná sáttum við andspyrnuöfl í Hong Kong. Kröfur þeirra skilgreindar og möguleg viðbrögð. Fyrir utan það að fallið yrði formlega frá framsalsfrumvarpinu hafa menn krafist sjálfstæðrar rannsóknar á mótmælunum og aðgerðum lögreglu, lýðræðislegra kosninga, að hætt verði að vísa til mótmælanna sem óeirða og að fallið verði frá öllum ákærum á hendur þeim sem þegar hafa verið handteknir.
Þverrandi stuðningur íbúa við Lam
Í umfjöllun Reuters, sem byggist á samtölum við embættismenn, segir að stjórnvöld í Hong Kong hafi talið að mögulegt væri að draga frumvarpið til baka og stofna til sjálfstæðrar rannsóknar á framgöngu lögreglu gegn mótmælendum. Það gæti orðið til að friða þá hófsamari í hópi mótmælenda. Stjórnvöld í Peking hafi hafnað því algerlega og Lam brýnd í því að bregðast við mótmælunum. Lam virðist því milli steins og sleggju. Hún liggur undir ámæli frá stjórnvöldum í Kína og heima fyrir segist innan við fjórðungur íbúa styðja hana. Staðan er flókin og litlar líkur á að hún leysist í bráð.