Miklu skiptir að draga úr einangrun og einsemd þeirra sem ekki geta verið á vinnumarkaði í skóla. Þetta segir framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs í Borgatúni í Reykjavík. Þar fær fólk sem ekki getur verið á vinnumarkaði tækifæri til að taka þátt í samfélaginu með margvíslegum hætti. Þar er boðið upp á myndlistarkennslu, jóga, slökun, dans, sjósund og matseld. Framkvæmdastjórinn segir það brýnt að fólk hafi eitthvað til að vakna til á morgnana. 

Hvað er Hlutverkasetur?

„Þetta er opin virknimiðstöð sem er opin fyrir alla þannig að þú þarft enga tilvísun og getur bara komið af utan af götunni. Hérna getur valið mismunandi iðju sem höfðar til þín og gerir það á eigin forsendum. Þú getur ráðið því hversu oft þú kemur í viku og við hvað þú starfar. En hugsunin er að við getum fundið eitthvert hlutverk sem hefur þýðingu og gildi fyrir þig. Af því að ef maður getur einhverra hluta vegna ekki verið á vinnumarkaðnum eða í skóla, þá er svo mikilvægt að maður hafi eitthvað til að vakna til á morgnana sem skiptir mann máli. Hérna hefurðu tækifæri til að láta gott af þér leiða,“ segir Elín Ebba Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs.

Hverjir koma í Hlutverkasetur?

„Sumt af þessu fólki er í endurhæfingu og er að nota þetta sem stökkpall út á vinnumarkaðinn. Er að prófa sig í að mæta og takast á við verkefni. Öðrum hefur kannski verið hafnað og eru ekki taldir hæfir eða tilbúnir í atvinnulega endurhæfingu. Og vilja samt vera virki. Svo eru aðrir að auka lífsgæði sín. Við erum með listamiðju. Við erum með leir, slökun, sjósund og eldamennsku. Það er fagfólk hérna en við erum ekki að ýta því að fólki, það verður að biðja um það sjálft,“ segir Elín Ebba.

Af hverju skiptir þetta máli, er ekki hægt að vera heima og slaka á á náttfötunum?

„Ja, það er kannski allt í lagi fyrir suma. En eftir smá tíma fer þetta að hafa niðurrífandi áhrif á heilsu af því að við erum þannig gerð sem manneskjur að við erum félagsverur. Við lifðum ekki af í gamla daga nema vera í hópnum. Það er það sama sem á við í dag þó að við getum lifað ein inni í herbergi með tölvuna okkar og á einhverjum miðlum, þá er heilinn þannig forritaður að hann fer í svona lifa af mode. Það tekur bara svo mikla orku sem minnkar mótstöðukraft líkamans og veldur alls konar sjúkdómum. Nú er búið að finna út að félagsleg einangrun og einsemd er jafnhættuleg og reykingar og óheilbrigður lífsstíll,“ segir Elín Ebba.

Hún ásamt fjórum öðrum skella sér í sjósund.

„Ég byrjaði á þessu í júní aðallega af því að ég vildi prófa eitthvað nýtt. Svo bara hef ég ekki getað hætt þessu síðan ég byrjaði af því að ég fann að þetta gerði mér svo gott andlega og líkamlega. Ónæmiskerfið hjá mér hefur styrkst,“ segir Ásdís María Helgudóttir.

Fríður hópur, fimm föngulega konur stinga sér til sunds hér í öldurótinu í Nauthólsvík. Hvernig er sjóinn? „Hann er kaldur!“ er hrópað til baka.

Við yfirgefum Nauthólsvíkina og stingum okkur aftur inn í hlýjuna í Hlutverkasetri. Matarilmur tekur á móti okkur.

„Ég kem hérna hálfsmánaðarlega og elda súpu. Frábært að koma hingað og fá að elda. Það lyftir manni svo upp. Maður hefur ekkert við að vera. Meira og minna er maður svona gluggatjaldafyllibytta nema það vantar brennivínið. Maður er bara svona heima mikið. Maður er búinn að vera á örorku í ansi mörg ár. Þetta göfgar mann aðeins þetta hlutverk. Óskaplega skemmtilegt. Þetta er mikil sálubót fyrir okkur að koma hingað,“ segir Tryggvi Garðarsson.

Honum til aðstoðar er Björgvin Eðvaldsson sem jafnframt sér um brauðbakstur. „Ég er búinn að vera hérna í fjögur ár og kem daglega.“

Hvers vegna?

„Af því að mér líður vel hérna. Þetta er annað heimili eiginlega, svo maður loki sig ekki af heima hjá sér. Ég er búinn að vera svolítið í einangrun heima við þannig að það ágætt að koma hingað og byrja morguninn hérna og vera til tvö, þrjú. Þá er maður orðinn góður. Þetta tengist náttúrulega þunglyndi hjá manni og kvíða og að vera innan um fólk er mjög gott. Maður hefur þá eitthvað til þess að vakna til,“ segir Björgvin.

Það eru mörg herbergi í Hlutverkasetri. Eitt er merkt Listasmiðja. Þar er sköruleg kona: Anna Henriksdóttir. Það er mikið af fallegum myndum á veggjum hérna um allt. Berð þú ábyrgð á þessu?

„Já, að miklu leyti. Þetta eru nátturulega nemendurnir sem við reynum að sýna hérna og setja upp á vegg. Við erum að hvetja fólk til þess að skapa,“ segir Anna.

Það er teiknað og málað og vatnslitir? „Já, já, og bókagerð, skrautskrift, brúðugerð og ullarþæfing,“ segir Anna.

Karl Kristján Davíðsson situr frammi í setustofu og borðar súpu. „Ég reyni að koma hingað í hverri viku. Mér finnst bara svo æðislegt að koma hingað og mála og svo er gaman að hitta fólkið og spjalla smá. Ég var á tímabili mikið einn heima. Ég á fjölskyldu þannig að ég var aldrei alveg einn. En svo veiktist ég í fyrra og þá byrjaði að koma hingað og mér finnst það mjög gott,“ segir Karl.

Rétt hjá situr kona og gerir upp dúkkuhús, pússar og málar. „Ég kem hingað til þess að hitta fólk til þess að vera í góðum félagsskap og til þess að fá hugmyndir. Það er rosa mikið starf hérna. Ég er ekki á vinnumarkaði og þetta bara kemur í staðinn fyrir það í raun og veru,“ segir Halla Vala Höskuldsdóttir.

Anna Margrét Jónsdóttir er að undirbúa jógatíma. „Ég byrjaði að koma hérna 2014 vegna þess að ég vildi koma í jóga. Ég byrjaði hérna í jóga þrisvar í viku. Svo fór ég að bæta zumba við og frönskunámi. Þetta er búið að gefa mér ofboðslega mikið. Þetta er fólkið mitt. Ég þekki alla þegar ég kem hérna. Við heilsumst. Það er talað öðru vísi hérna en á vinnustöðum. Fólk er mikið einlægara. Það hikar ekki við að segja ef það hefur átt slæman dag,“ segir Anna Margrét.

Myndirðu segja að það hafi bætt andlega líðan að koma hingað?

„Algjörlega. Ég missti manninn minn 2014. Þá fór ég að einangra mig og leið mjög illa. Þá fór ég að kíkja á netið og kíkti á staði sem ég hafði möguleika á að fara á. Ég ákvað að fara í Hlutverkasetur. Það er mín önnur fjölskylda. Það er eitthvað hér sem er hvergi annars staðar,“ segir Anna Margrét.