Edda Sif Pálsdóttir og félagar í Landanum kíktu í Fjóshelli ásamt Baldri Þórhallssyni stjórnmálafræðiprófessor. Umhorfs minnir þar um margt á sviðsmynd í Indiana Jones eða The Lord Of The Rings kvikmyndunum og er sjón sannarlega sögu ríkari.
Stjórnmálafræðiprófessorinn Baldur Þórhallsson bauð Eddu Sif og hennar teymi í Landanum velkomin í Fjóshelli en hún og hennar fólk eru hvergi af baki dottin þrátt fyrir að vera komin langleiðina í sólarhrings ferðalagi sínu um landið. Þau hafa nú vakað í næstum sólarhring og eru orðin afar svefnvana eftir 18 klukkustunda útsendingu en það vakti bæði þau og hrifningu þeirra að vera boðið inn í óvæntan ævintýraheim sem staðsettur er í undirlendum Suðurlands. Kertaljós vörpuðu flöktandi skuggum á hellisveggi Fjóshellis en þar inni lék Baldur sér sjálfur sem barn og þekkir hann því hvern krók og kima í hellinum.
Baldur segir að ekki sé vitað hvenær hellirinn varð til en að kenningar séu á lofti, sérstaklega á meðal heimamanna á Suðurlandi, að þar hafi paparnir írsku verið á ferð og að ýmsar heimildir renni stoðum undir þær. „Afi minn sem er fæddur í lok 19. aldar sagði okkur að hellarnir væru gerðir af írsku fólki sem hefði numið hér land á undan víkingunum. Hann hafði þessar munnmælasögur eftir forfeðrum sínum og þessum sögum trúum við fram í rauðan dauðann.“
Inni eru bæði syllur fyrir ljós og höfðingjasæti og hafði Edda Sif orð á því að það væri eins og að ganga inn í veislusal að koma inn. Baldur staðfestir að í Fjórheli hafi sannarlega bæði verið haldnar giftingar og tónleikar.
Alla heimsókn Eddu Sifjar í hellinn má sjá efst í fréttinni en sjón er sögu ríkari. 300. þáttur Landans er í beinni útsendingu í heilan sólarhring á RÚV 2 og vef RÚV. Fimm umsjónarmennn ásamt tökuliðum þeysa um allt land, hver í sínum landshlutanum. Þau flakka á milli, taka viðtöl, segja og sýna hvað landsmenn eru að fást við í leik og starfi.