Bókavörðurinn og hrollvekjusérfræðingurinn Úlfhildur Dagsdóttir hefur undanfarin ár gengist undir erfiða krabbameinsmeðferð. Hún sér ýmis líkindi með því mikla inngripi sem meðferðin er í líkama hennar og þeim hryllingssögum sem hún hefur stúderað í gegnum tíðina. „Aflimun, eitrun og bruni, svipað eins og með nornir,“ segir Úlfhildur sem var gestur Viðars Eggertssonar í Segðu mér.
Þrátt fyrir að gegna starfsheitinu bókavörður á Borgarbókasafninu segir hún bækur ekki þurfa á neinni vernd að halda. „Það þarf einmitt að óverja bækur, koma þeim sem víðast út í heiminn og láta ganga á milli fólks og dreifa vafasömum hugmyndum eins og ónæmisfrjóum.“ Úlfhildur sér um safnkost bókasafnsins, pantar inn bækur og henda öðrum sem eru ónýtar eða ólesnar. „Það er vont en það venst,“ segir hún. „Það sem ég hugsa alltaf með mér þegar ég hendi bók er að þá er pláss fyrir aðra í staðinn. Borgarbókasafnið er fyrir almenning og ekki varðveislusafn. Þannig okkar mission er fyrst og fremst að koma bókum út til lesenda.“
Bókasafnið hefur svo undanfarið farið að fikra sig áfram með lán á raf- og hljóðbókum. „Fólk er bara algjörlega sjúkt í þetta. Þarna kemur hljóðbókin inn sem viðbót við hefðbundinn lestur því fólk er með með þetta í bílnum, þegar það vinnur heimilisstörf, eða bara í vinnunni þegar það er við störf sem krefjast ekki þess að hugurinn sé virkjaður.“ Þegar rafbók er lánuð þarf fólk heldur ekki að hafa áhyggjur af skiladegi eða sektum, stafræna eintakið hreinlega eyðist úr snjalltæki notendans þegar lánstíminn er liðinn.
Úlfhildur hefur í gegnum tíðina líka fengist við kennslu í Háskóla Íslands, en þar finnst henni skemmtilegast að leiðbeina nemendum að skrifa lokaritgerðir. „Þá situr maður með einum nemenda og fer yfir hlutina í rólegheitunum. Spjallar um tungumál og viðfangsefni. Þetta finnst mér æði, og eitthvað sem ég hef alltaf gaman að gera.“ En Úlfhildur hefur ekki bara lesið mikið heldur einnig verið viðfangsefni bókar sem afi hennar skrifaði um hana sem barn; Úlla horfir á heiminn. Foreldrar Úlfhildar skyldu þegar hún var þriggja ára og hún dvaldi þá mikið hjá móðurömmu- sinni og afa, sem fékk barnabókaverðlaun á sínum tíma fyrir bókina. „Það var talað um hana sem fyrstu bókina sem lýsir „óhefðbundnu“ fjölskyldumynstri, dóttur sem bjó hjá einstæðri móður og átti fjarlægan föður.“
Í bókmenntafræðinni sérhæfði Úlfhildur sig í vampírum, blóðsugum og hryllingssögum. „Ég vil meina að þetta sé flest komið frá barnabókmenntum.“ Þjóðsögur, draugasögur og ævintýri ætluð börnum séu oft full og hryllingi og ógeði og nefnir hún Grimms-ævintýrin sem dæmi. „Það er oft kvartað yfir því að Disney hafi hreinsað Grimms-ævintýrin af allri grimmd. En Grimm-ararnir voru sjálfir búnir að endurskrifa sín ævintýri, þannig gömlu ævintýrin hafa verið mjög blóðug. Við sjáum þetta í íslenskum ævintýrum og þjóðsögum sem hafa ekki verið dauðhreinsuð jafn mikið. Disney hefur ennþá ekki komist í þau.“
Í Dublin sótti Úlfhildur sér framhaldsnám í hrollvekjum sem hún skoðaði mikið út frá kynjum, kynhlutverkum og líkamleika. „Þar koma vampírurnar inn því þær eru mjög fjölkynja og ekkert að hafa áhyggjur af því hvers kyns líkaminn er sem þær bíta og nærast á. Svo fylgja þessu kynferðislegir undirtónar eins og tilfærsla á líkamsvessum.“ Á níunda áratugnum koma svo fram kvikmyndagerðarmenn eins og David Cronenberg, svokallaðar líkamshryllingsmyndir og hin samkynhneigða vampíra verður vinsæl í bókum Ann Rice. „Þessi kynusli, kynjaflökt, upplausn líkamans og þar með þess merkingarheims sem er hlaðið utan á hann; ég er kvenkyns, ég vinn kvennastörf sem bókaverja og kennari.“ Allt séu þetta bara merkingar sem hafi verið hlaðið utan á hana vegna líkama hennar. „Það er eitthvað sem ég skynja betur sjálf eftir að hafa gengið í gegnum sundrun, aflimun og eitrun á mínum líkama eftir að hafa farið í krabbameinsmeðferð.“
Úlfhildur greindist með brjóstakrabbamein fyrir ekki svo löngu síðan og segir þær aðferðir sem notaðar eru gegn krabbameini eins og beint frá miðöldum. „Það er aflimun. Skorið af mér annað brjóstið og hitt minnkað. Ég var svona eins og þverskorin ýsa sagði ein góð vinkona mín. Síðan er líkamanum drekkt í eitri sem rústar öllu. Svo er kveikt í manni, maður fer í laser-aðgerð og er brenndur. Aflimun, eitrun og bruni, svipað eins og var farið með nornir.“ Hún segist þarna hafa upplifað á eigin skinni þær kenningar sem hún hafði stúderað um upplausn líkamans. „Ég veit svo sem ekki hvers kyns ég er eftir þetta. Ég er með hálft brjóst. Eitrið brennir eggjastokkana og alla hormónavirkni þannig ég er steingeld.“
Úlfhildur sér um hinsegin deild Borgarbókasafnsins þó hún telji sig ekki endilega til þeirra. „Ég segi stundum að ég geti alveg gert það þó ég skilgreini mig ekki endilega sem hinsegin. En ég er með hálft brjóst. Ég er einskis kyns. Þannig ég get alveg eins tekið að mér þessar bækur.“ Úlfhildur er síðan með eigin bók í maganum sem hún segir gæti orðið framhald af Úlla horfir á heiminn með vampíruívafi. „Því það er þessi samfella í mínu lífi á þessum hryllingspælingum og krabbameinsupplifun langar mig að gera eitthvað við þetta. Hvað svo verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.“
„Ég heimsótti Drakúla í fyrra,“ segir Úlfhildur og á þar við hérað í Rúmeníu þar sem hinn raunverulegi Dracula greifi réð ríkjum, sem var kallaður Vlad stjaksetjari og þekktur fyrir mikla grimmd. „Það var alveg meiriháttar. Að fara í fæðingarbæ Drakúla og búa í hóteli sem var í þarnæsta húsi við hann. Ég var bara að vappa um sömu slóðir og hann þegar hann var barn.“
Viðar Eggertsson ræddi við Úlfhildi Dagsdóttur í Segðu mér. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í útvarpsspilara RÚV.