Margir Súðvíkingar eiga enn um sárt að binda þótt 20 ár séu liðin frá því snjóflóðið féll í janúar 1995. 14 fórust í flóðinu. Stúlka sem lá í 15 tíma undir snjó myndi þiggja áfallahjálp núna ef hún stæði henni til boða.

Orðið áfallahjálp var ekki mikið notað og ef til vill ekki til á þeim tíma þega snjóflóðin félllu 16. janúar fyrir 20 árum. Margir íbúar hafa því þurft að finna út úr því sjálfir hvernig hægt er að lifa með þessum atburðum. 

Elma Dögg Frostadóttir var 14 ára þegar snjóflóðin féllu, hún var 15 klukkutíma í flóðinu og var hætt komin. „Ég var alveg lokuð inn í snjó, alls konar drasl ofan á mér og ég gat ekkert hreyft mig. Skápurinn, veggir og tvö þök, ég gat ekkert hreyft mig,“ lýsti hún reynslu sinni í fréttum 8. mars 1995.

Elma segir að henni hafi verið orðið það kalt að hún hafi ekki lengur fundið fyrir kulda. „Nýrun á mér voru næstum eiginlega ónýt eða svona næstum því bjargaði mér að fara í þessa nýrnarvél svo var það löppin á mér; þeir efuðust um að geta bjargað henni fyrst.“

Elma segir þetta ekki verða auðveldara eftir því sem tíminn líður. „Því lengra sem líður frá og því meira sem ég eldist, það er svo skrítið; þetta verður ekkert auðveldara. Ég er búin að ná mér líkamlega en ég hugsa að ég muni aldrei ná mér andlega. Mér líður eins og ég sé með sár sem grær aldrei, það kannski kemur yfir það en það grær ekki.“

Elma fékk ekki áfallahjálp og hún veit ekki til þess að aðrir hafi fengið hana. Prestar og læknar töluðu við Súðvíkinga á sínum tíma en ekki var um eiginlega áfallahjálp að ræða. Fjórum til fimm árum eftir flóðið féll Elma í alvarlegt þunglyndi. Hún leitaði til sálfræðings en hafði ekki ráð á þjónustu hans. Þá var henni sagt af sjóði sem fólk sem lenti í snjóflóðunum gat sótt í en fékk að vita að búið væri að loka honum. „En ég veit að ég var ekki sú eina sem fékk svona seinni tíma áfall, við vorum mörg sem fengum svona eftir á og gátum þá ekki leitað að aðstoð nema bara úr eigin vasa.“

Elma er ósátt við ólík viðbrögð við snjóflóðinu í Súðavík annarsvegar og á Flateyri hinsvegar. „Ég verð svo reið þegar er alltaf er verið að tala um Flateyrarslysið, við ætlum ekki að gera sömu mistök og í Súðavík.“ Allt tal um að ekki verði brugðist jafn illa við og í Súðavík. „Mér finnst þetta ljótt. Þótt þetta sé kannski ekki illa meint, þá angrar þettta mig. Þau fengu aðstoð, okei ekkert mál. Þetta var sama ár, af hverju mátti þá ekki líka taka súðvíkinga inn í?“ 

Elma segist myndu þiggja áfallahjálp ef hún byðist henni í dag. „Ég hugsa að það væri alveg möguleiki að ég ásamt fleirum myndi þiggja þá aðstoð.“