Filippseyingar hafa brugðist harkalega við ályktun Íslands sem var samþykkt í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag. Fulltrúi Filippseyja segir orðalag í henni eins og úr munni hjartadrottningarinnar í Lísu í Undralandi. Þetta er fyrsta ályktun sem Ísland leggur fram í Mannréttindaráðinu og því sú fyrsta sem er samþykkt. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir gagnrýni stjórnvalda á Filippseyjum ekki svaraverða. Krafa um úttekt á stöðu mannréttinda sé eins hógvær og hún geti orðið.
Stjórnvöld á Filippseyjum hafa sætt harðri gagnrýni fyrir að virða ekki mannréttindi borgara, alveg frá því Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, lýsti yfir stríði gegn eiturlyfjahringum í landinu. Talið er að minnst sex þúsund manns hafi látið lífið síðan 2016 og stjórnvöld eru sökuð um aftökur án dóms og laga. Í ályktun Íslands sem Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í morgun segir að ráðið lýsi formlega yfir áhyggjum af ástandinu á Filippseyjum, hvetji stjórnvöld í landinu til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafa staðið fyrir slíku.
Setur pressu á ríkisstjórn Filippseyja
Guðlaugur Þór segir þetta sigur fyrir Íslendinga og baráttuna fyrir mannréttindum. „Það er mikilvægt fyrir mannréttindi að ályktun eins og þessi fari í gegn og þau rök sem hafa verið notuð gegn henni, þau standast enga skoðun. Nú er búið að samþykkja þessa ályktun. Harald sagði að orðum yrðu að fylgja aðgerðir. Hvað aðgerðir verður ráðist í? Þetta setur auðvitað pressu á ríkisstjórn Filippseyja að vinna með alþjóðastofnunum um að taka út ástand mannréttindamála á Filippseyjum. Ég held að þetta sé eins hógvær krafa og getur orðið, og vonandi mun alþjóðasamfélagið ýta á eftir því að það verði,“ segir Guðlaugur Þór.
„Svo fáránlegt að það er ekki hægt að svara þessu“
Ályktunin hefur valdið hörðum deilum og fulltrúar Filippseyja ítrekað gengið út af fundum þar sem hún er rædd. Utanríkisráðherra Filippseyja sagði í gær að þeir sem hefðu unnið að henni ættu von á greiðslum frá eiturlyfjahringum, verði hún samþykkt. „Jahh, þetta er svona nýr flötur. Ég hef ekki verið ásakaður um þetta áður. Þetta er náttúrulega svo fáránlegt að það er ekki hægt að svara þessu. En sýnir kannski í hvaða stöðu stjórnvöld á Filippseyjum eru þegar þau grípa til þess að koma með jafn fráleitar ásakanir og raun ber vitni.“
Ísland látið til sín taka þegar aðrir bakka
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, bætti um betur síðdegis í dag og sagði ályktunina bilaða. Evan Garcia, fulltrúi Filippseyja segir orðalag í henni eins og úr munni hjartadrottningarinnar í Lísu í Undralandi. Duterte flytur árlegt ávarp sitt til þjóðarinnar síðar í þessum mánuði og því kemur þessi ályktun á versta tíma fyrir hann. Á vef New York Times er fjallað um ályktunina, sem er fyrsta ályktun sem Ísland leggur fram í ráðinu og fær samþykkta. Það er Ísland tekið sem dæmi um lítið ríki sem geti látið til sín taka og hafi gert það, þegar önnur forðist það af ótta við hefndaraðgerðir.