Nýtt leikrit, Iður, var frumsýnt í Tjarnarbíó fyrir skemmstu. Það byggir á sögu breska lögreglumannsins Mark Kennedy, sem njósnaði árum saman um anarkista og aðgerðasinna víða í Evrópu. Þar á meðal á Íslandi þar sem hann laumaði sér í raðir Saving Iceland við Kárahnjúka.

Hlutverk Kennedy var að fylgjast með aðgerðum róttæklinga í umhverfisvernd og koma upplýsingum til lögregluyfirvalda í Evrópu. Gunnar Karel Másson, tónskáld og höfundur Iður, segir að það hafi verið hið tvöfalda líf sem Kennedy þurfti að lifa sem hafi vakið áhuga hans á efninu. 

„Hann var lögreglumaður í dulargervi en hann átti líka fjölskyldu heima við, fór heim til þeirra í frí og þurfti að koma með baksögu gagnvart umhverfisverndarsinnunum sem hann var að njósna um. Þetta tvískipta líf sem hann lifði fékk mig til að hugsa hvernig við birtum okkar eigið sjálf gagnvart umheiminum. Það var líka allt mjög spennandi sem ég fann um hann og aktivistana. Hvernig þeir komust smátt og smátt að því að það væri flugumaður meðal þeirra og þegar það kom í ljós að það var hann fór allt á fleygiferð hjá þeim. Það var í raun þessi dramatíska saga sem kveikti í mér.“

Iður er einleikur. Leikarinn Hlynur Þorsteinsson fer með hlutverk Kennedy en verkið er byggt þannig upp að hann er að kljást við sjálfan sig og eigin hugsanir meðan hann undirgengst yfirheyrslu hjá aðgerðasinnunum. 

„Við færum í stílinn út frá því en hugmyndin er að þetta sé eitt augnablik sem við fáum að líta inn í.“ 

Tónlist leikur stórt hlutverk í sýningunni. Gunnar er tónskáld að mennt og kallar verkið tónleikhús.

„Við þekkjum öll óperu, við þekkjum öll söngleiki. Hérna er unnið með það leikræna og tónlistarlega jöfnum höndum, handritið er skrifað með tónlistina í huga algjörlega frá byrjun og tónlistin er líka í miklum fókus. Þetta er byrjunin á fleiri verkum sem ég hef í bígerð. Þetta er fyrsta verk sem er einleikur, svo hef ég hugmyndir um að gera fyrir tvo, jafnvel fjóra. Þetta er vegferð sem vonandi mun standa yfir lengi.“Ein