Júlía Birgisdóttir varð fyrir því að maður sem hún átti í stuttu sambandi við fyrir þremur árum tók upp myndband af henni án hennar vitneskju þegar þau sváfu saman og setti svo á internetið.

Þegar Júlía komst að þessu um síðustu áramót tók hún sinn tíma í að ákveða hver hennar næstu skref yrðu í málinu.  Hún segir í viðtali við Kastljós sem sýnt verður í kvöld að í fyrstu hefði einlæg afsökunarbeiðni frá manninum nægt henni og aldrei hafi henni dottið í hug að kæra málið. Hún hafi tekið þetta of nærri sér og ekki verið tilbúin að gera neitt sem krefðist þess að hún gerði þetta opinbert.  

Í byrjun sumars ákvað hún að kæra málið til lögreglu og höfðaði samhliða einkarefsimál á hendur manninum þar sem hún fór fram á skaðabætur og fangelsisrefsingu. Þetta gerði hún af því hún segist ekki treysta því að lögregla gefi út ákæru í málinu og að rannsóknin taki alltof langan tíma. Málið hefur verið í hálft ár í rannsókn hjá lögreglu og ekki hefur verið gefin út ákæra.

Júlía er ekki nafngreind á myndbandinu en hún segir að því hafi verið mikið dreift á netinu og sé að finna á mörg hundruð erlendum klámsíðum nú tveimur árum síðar.   Júlía hefur ákveðið að stíga fram opinberlega og segja sína sögu í fyrsta skipti í Kastljósi í kvöld sem hefst 19:35.