Belgískur skurðlæknir segir að barkaígræðslur sem grunur leikur á að hafi leitt til dauða sjúklinga séu einhverjar mestu lygar læknasögunnar. Sænska lögreglan hefur tekið málið til rannsóknar. Íslenskir læknar eru á meðal höfunda greinar þar sem slík aðgerð var sögð hafa heppnast vel.
Fjallað var um mál Erítreumannsins Andemariam Beyene í fréttaskýringarþættinum Uppdrag granskning í Sænska ríkissjónvarpinu í kvöld. Beyene greindist með alvarlegt krabbamein í barka þegar hann var við nám í Háskóla Íslands árið 2009. Hann hlaut læknismeðferð hér á landi en í þættinum kemur fram að íslenskur læknir, Tómas Guðbjartsson, var á meðal lækna sem áttu þátt í því hann fór til Svíþjóðar þar sem græddur var í hann plastbarki árið 2011. Ítalskur læknir, Paolo Macchiarini, gerði aðgerðina, sem var sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Tómas var beðinn um að taka þátt í aðgerðinni þar sem hann hafði framkvæmt aðgerð á honum áður hér á landi.
Nokkrum mánuðum síðar birtist grein um aðgerðina í hinu virta læknatímariti The Lancet. Á meðal fjölda höfunda greinarinnar voru Macchiarini, Tómas og annar íslenskur læknir, Óskar Einarsson. Í greininni kemur fram að aðgerðin hafi heppnast vel og að allt bendi til að aðferðin virki. Í kjölfarið framkvæmdi Macchiarini minnst átta slíkar aðgerðir til viðbótar. Í þættinum í kvöld kom fram að minnst fjórir þeirra sjúklinga væru látnir. Þar á meðal er Beyene sem lést í janúar í fyrra.
Nokkra meðhöfunda Macchiarinis fór að gruna að ekki væri allt með felldu og beindu spjótum sínum að greininni í The Lancet. Þar hafi sannleikanum verið hagrætt og engin sýni verið tekin til að styðja þá fullyrðingu, að heilbrigður frumuvefur hafi að hluta tengst plastbarkanum. Þá hafi ekki fengist leyfi siðanefndar fyrir aðgerðinni auk þess sem sjúklingurinn hafi ekki verið rannsakaður nægjanlega áður en greinin var birt. Yfirmenn Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi, þar sem aðgerðin var framkvæmd, hófu í kjölfarið sjálfstæða rannsókn á málinu sem skilaði afgerandi niðurstöðu.
„Paolo Macchiarini hefur gefið ófullnægjandi eða rangar upplýsingar samkvæmt þeim gögnum sem finna má í læknaskýrslum. Þar með er hann sekur um misferli vegna þess að þær niðurstöður sem hann hefur kynnt fyrir vísindaheiminum eru ekki í samræmi við læknaskýrslurnar,“ sagði Bengt Gerdin, yfirmaður rannsóknarinnar, í viðtali í þættinum á SVT í kvöld.
Í þættinum er gefið í skyn að Macchiarini hafi haft fjárhagslegra hagsmuna að gæta í gegnum bandarískan framleiðanda plastbarkanna. Og nú hefur sænska Lyfjastofnunin kært Karólínska sjúkrahúsið til lögreglu vegna málsins. Sænska sjónvarpið hitti Pierre Delaere, belgískan sérfræðing í barkaígræðslum sem segir málið með ólíkindum, enda öruggt að aðgerðin leiði fólk til dauða. Þess ber þó að geta að Delaere og Macchiarini hafa verið samkeppnisaðilar um langt skeið, og raunar staðið í hatrammri baráttu sín á milli.
„Að mínu viti eru þetta einhverjar mestu lygar í læknasögunni. Þarna gerir hann aðgerð sem er algjörlega ómöguleg í fræðilegu tilliti, hún var ekki byggð á tilraunum heldur gerði hann nýja tegund aðgerða á mönnum, sem gat ekki annað en mistekist. Það er glæpsamlegt að mínu mati,“ segir Delaere.
Þá gefur hann ekki mikið fyrir greinina sem birtist í The Lancet.
„Það er misvísandi að þeir sem gripu þarna inn í kunna að skrifa fræðigreinar. Þeir kunna að blekkja og umbreyta smámunum í eitthvað sem fæst meira að segja gefið út í The Lancet. Það er mjög misvísandi,“ segir Delaere.
Hvorki Tómas Guðbjartsson né Óskar Einarsson vildu tjá sig um málið að svo stöddu.