Bækurnar tvær sem Svíar tilnefna til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fjalla báðar um einelti en með gjörólíkum hætti. Risulven risulven er ljóðræn raunsæissaga um þrettán ára strák sem af ýmsum ástæðum sker sig úr og líður líklega best þegar hann er með bekkjarsystur sinni flóttastúlkunni sem líka sker sig úr en tekst allt öðruvís á við það. Den förskräckliga historien om Lilla Hon eða Hryllingssagan um Lillu er hins vegar sannkölluð hryllingssaga um einelti.
Risulven risulven (Hrísúlfurinn hrísúlfurinn) segir frá hinum tólf ára Pär sem má sitja undir háðsglósum bekkjarfélaga sinna þegar þeir nenna að standa í því og þegar þeir sjá hann. Pär virðist nefnilega vera ósýnilegur eins og títt er með börn sem verða fyrir einelti í skólum. Um svipað leyti eignast Pär hins vegar vinkonu sem eins og hann þvælist ein um skóginn niðri við vatnið í útjaðri bæjarins þar sem þau búa. Stúlkan kallar sig Rísúlfinn og segist búa á heimavist því fjölskylda hennar sé í burtu.
Í skólanum breytist framkoma Rísúlfurinn í Rihönnu, hlær hátt og heldur sig með hinum krökkunum. Vinátta þeirra er aðeins til í skóginum og niðri við vatnið. Eftir því sem á líður verður ljóst að Rihanna er flóttamaður, fylgdarlaust barn væntanlega. Hún er ættuð frá Sýrlandi og hefur ekki séð fjölskyldu sína í langan tíma.
Pär á líka við ýmis fleiri vandamál að stríða, einstæð móðir hans er atvinnulaus og reynir að púkka upp á fjárhag þeirra mæðgina með vafasömum aðferðum.
Í sögunni dregur Lena Ohlmark upp smækkaða mynd af samfélaginu með allri sinni mismunun út frá stétt og efnahagslegri stöðu, eiturlyf koma við sögu og vissulega tilraunir kennarans til að verða Pär að liði. Það er hins vegar ekki einfalt því Pär segist ævinlega hafa það fínt, hann vilji sjálfur vera inni í frímínútum og nei enginn sé vondur við hann og mamma hans hafi það gott.
Hin bókin sem Svíar tilnefna Den skräckliga historien om Lilla Hon eða Hryllingssagan um Lillu fjallar líka um einelti en með öllu harðneskjulegri hætti gert var í sögunni um Rísúlfin þótt þessi bók sé augljóslega ætluð yngri lesendum. Bókin er styttir, textinn einfaldari og hún er ríkulega myndskreytt. Lilla hon eða Lilla nýtur lítillar ástúðar í umhverfi sínu. Foreldrar hennar eru með stöðugar aðfinnslur um að hún drasli svo mikið út og sé hávaðasöm og í skólanum skemmta krakkarnir sér oftast og best með því að segja Lillu sögur af draugum sem hafist við í ólíkum vistarverum skólans. Lillu hins vegar dreymir aðeins um að fá að vera með krökkunum í koddaherberginu.
Einn daginn lofa þau henni að hún megi vera með en fyrst þurfi hún að sýna kjark og fra ein inn á háaloft skólans. Lilla gerir það skjálfandi á beinunum því þar heldur einn drauganna til. Krakkarnir vilja hins vegar bara skemmta sér, skella aftur hurðinni og aflæsa.
Enginn tekur eftir því að Lillu vantar, ekki einu sinni foreldrar hennar. Þau er bara ánægð að ekki skuli vera drasl úti um allt. Kennarinn man heldur ekki hver sat á stólnum sem nú er auður. Á endanum er samt farið að leita og krakkarnir upplýsa um ljóta gjörð sína. En þá er það orðið um seinan, Lilla hefur þá þegar sameinast draugunum í skólanum og þau skemmta sér öll saman í koddaherberginu.
Hryllingssagan um Lillu er sannkölluð hryllingssaga og jafnast á við blóðugustu og harðneskjulegustu ævintýri sem þrátt fyrir hryllinginn eru oft í miklu uppáhaldi hjá ungum lesendum eftir því sem Markús Már Efraím segir en Markús hefur unnið mikið með börnum á frístundaheimilum, haldið ótal ritunarnámskeið fyrir börn, gefið út drauga - og hryllingssögur sem þau hafa skrifað auk þess að skrifa eina bók með hryllingssögum fyrir börn.