Einelti viðgengst víða á dvalarheimilum aldraðra á Íslandi. Karlar verða frekar en konur fyrir eineltinu sem oftast er andlegt. Þetta er niðurstaða Péturs Kára Olsen sem rýndi í málið fyrir lokaritgerð sína í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.

„Þetta snýst meira um útilokun og höfnun, en minna um líkamlegt ofbeldi,“ segir Pétur Kári í samtali við Morgunútvarpið. Hann varð sjálfur fyrir einelti sem barn og unglingur og málefnið er honum þess vegna hugleikið. Eftir því sem umræðan um einelti hefur opnast hefur það verið rannsakað æ meira í skólum og á vinnustöðum, en lítið sem ekkert meðal elsta aldurshópsins. „Ég fór á sex heimili og einelti fannst á öllum þessum stöðum, í mismiklum mæli. Það var töluvert um baktal, grín á kostnað annarra og niðrandi orðaval í samskiptum.“

Pétur Kári segir að samkvæmt kenningum í öldrunarfræðum sé líklegt að þeir sem hafi lagt aðra í einelti í æsku haldi því áfram á gamals aldri. „Í rannsókninni kemur fram að helsta hættan á að lenda í einelti er inni í matsal. Á einum stað þegar ég hlustaði á lýsingar þá fékk ég flashback frá því þegar ég var sjálfur í grunnskóla og þorði ekki inn í matsalinn.“ Hann segir nauðsynlegt að opna umræðuna og fræða starfsfólk og vistmenn. „Þetta virkar eins og falinn veruleiki, eitthvað sem við viljum ekki tala um.“

Rætt var við Pétur Kára Olsen í Morgunútvarpinu en áhugasamir geta kynnt sér ritgerð hans í Skemmunni.