Ársæll Árnason býr í eina húsinu á höfuðborgarsvæðinu sem kynt er með olíu. Húsið stendur í miðri Reykjavík. Húsið er líka líklega það eina þar sem rafmagnið er tengt úr rafmagnsstaur sem stendur fyrir utan húsið. Hann segir að borgin vilji rífa húsið og neitar honum um heitaveitu
„Ég veit það ekki alveg nákvæmlega en það eru mjög miklar líkur á því.“
Segir Ársæll Árnason þegar hann er spurður að því hvort hann búi í eina íbúðarhúsinu sem kynnt er með olíu á höfuðborgarsvæðinu. Speglinum hefur ekki tekist að finna önnur hús sem nota olíu. Húsið var byggt 1956, í óleyfi eins og það hét. Það stendur sunnan megin við Höfðabakkabrúna. Jóhann bróðir Ársæls, sem lést í fyrra, keypti húsið 1974 og bjó þar fyrst. Þeir bræður bjuggu svo þar saman.
Borgin neitar
Það er eðlilegt að spurt sé hvers vegna húsið er kynt með olíu. Vegna þess að ég fæ ekki hitaveitu hingað, segir Ársæll.
„Það hefur alla tíð strandað á því. Það er búið að vera að reyna í mörg ár að fá hitaveitu í þetta hús,“ segir Ársæll. „Borgin neitar því, Orkuveitan neitar því. Það eru þeir sem ráða.“
Kostar of mikið
Ársæll fær þau svör að hann eigi að nota rafmagn til að kynda upp húsið. En hann er ekki tilbúinn til að samþykkja það.
„Það kostar of mikið. Það þarf að skipta um rafkerfið í húsinu, skipta um töfluna og mælana. Svo þarf ég náttúrulega að kaupa alla rafmagnsofnana,“
-Færð þú einhvern styrk eða niðurgreiðslu á olíunni?
„ Nei, ja þetta er náttúrulega vélarolía. Hún er ódýrari en sú sem er verið að nota á bíla. Þetta er lituð olía svokölluð.“
Borgin vill rífa húsið
Málið er aðeins flóknara þegar kemur að því að leggja hitaveitu í húsið. Hitaveitustokkurinn er ekki langt frá húsinu þannig að það ætti vera tiltölulega einfalt mál. Ársæll segir að borgin vilji rífa húsið.
„Neitunin felst í því að þetta hús eigi ekki að vera hérna, það eigi að rífa það. Málið er það að borgin vill ekki hafa þetta hús hérna,“ segir Ársæll.
Krafa borgarinnar er að húsið verði rifið. Kemur ekki til greina að fallast á það og flytja í hús sem er með hitaveitu. Nei, segir Ársæll. Borgin vill ekki greiða neitt fyrir húsið. Hann bendir á að hús hafi verið rifið hinu megin við götuna. Ekkja sem þar bjó átti ekki fyrir því að gera við þakið vegna þess að það var svo dýrt.
„Verktakarnir ætluðu að taka tvær milljónir fyrir átta eða tíu árum. Hún vildi fá einstaklingsíbúð í blokk en hún gat ekki keypt einstaklingsíbúð fyrir peningana sem hún fékk fyrir húsið.“
„Pabbi kyndir með olíu í miðri Reykjavík.“
Það vekur furðu margra að enn sé hús í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu sem kynt er upp með olíu. Ársæll rifjar upp sögu af syni sínum.
„Sonur minn var að keyra rútu með ferðamenn og leiðsögumaðurinn var að útskýra fyrir ferðamönnunum að Reykjavík væri öll kynt upp með heitu vatni. Þá greip sonur minn oft fram í fyrir þeim og sagði að það væri ekki rétt því faðir hans byggi í miðri Reykjavík og kynti með olíu. Þá vildu þeir helst að hann hætti að tala,“ segir Ársæll.
Brennandi áhugi gömlum bílum
Ársæll og bróðir hans, sem lést í fyrra, eru þekktir fyrir að gera upp gamla bíla. Þegar Spegilinn bar að garði var Ársæll að að pússa og slípa boddý af Ford 55 Ranch Wagon. Hann hefur óbilandi áhuga á bílum. Uppáhaldsbíllinn hans er Oldsmobile árgerð 56. Hann hefur gert hann upp fimm sinnum. Fyrir utan húsið má sjá margar glæsikerrur.
Rafmagnið úr rafmagnstaur
En þar blasir líka við rafmagsstaur. Frá honum liggja raflínur í lofti yfir í húsið. Ársæll segir að það sé örugglega mjög fátítt. Til skamms tíma var síminn líka tengdur úr staur.
„Já síminn var líka hérna í loftinu þangað til Síminn var seldur. Þá hunskuðust þeir til að grafa hann í jörðu. Annars voru bara alltaf vandræði á veturna,“ segir Ársæll. Hann reiknar með að húsið hans sé eina húsið sem er tengt rafmagni úr rafmagnsstaur.