Unnið er að því að ISAVIA taki alfarið yfir rekstur, viðhald og framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli og byggi hann upp sem aðal varaflugvöll fyrir millilandaflug og nýti til þess tekjur frá Keflavíkurflugvelli. Umdæmisstjóri hjá ISAVIA vill byggja sérstaka akstursbraut við hlið flugbrautarinnar en þá gætu vélar lent með skömmu millibili.

Akstursbraut og jafnvel lenging

Flugbrautin á Egilsstöðum er tvö þúsund metra löng og vélarnar eru dágóða stund að aka alla leið til baka og út af brautinni. Þetta þarf að ganga hraðar, sérstaklega þegar koma þarf mörgum vélum fljótt niður á jörðina. ISAVIA hefur látið teikna upp akstursbraut sem myndi leysa málið.

„Það getur til dæmis verið mikilvægt ef vél er að koma, margar vélar í röð. Einhverjar af þeim eru búnar að fljúga lengi og farið að minnka hjá þeim eldsneytið. Eins og til dæmis í eldgosum eða þegar Keflavík lokast vegna veðurs og svo framvegis þá er náttúrulega mjög mikið atriði að geta komið sem flestum vélum í stæði. Ekki að teppa endilega flugbrautina, völlinn sem slíkan heldur, koma þeim niður á jörðina og hafa þær í stæði,“ segir Jörundur Ragnarsson, umdæmisstjóri ISAVIA á Austurlandi. Á akstursbrautinni yrði hægt að geyma allt að 15 flugvélar. Þá má nefna að Icelandair hefur kallað eftir því að flugbrautin á Egilsstöðum verði lengd og endurnýja þarf malbik á vellinum.

Bestu skilyrðin á Egilsstöðum

Bæði í grænbók að flugstefnu og nýlegri skýrslu um flugvallakosti á suðvesturhorninu er talið ódýrast og fljótlegast að byggja upp Egilsstaðaflugvöll sem helsta varaflugvöll landsins. „Eins og mér hefur skilist af þeim sem í fluginu starfa að þá séu það aðstæðurnar til flugs að og frá. Það er opið hér til allra átta. Eins að hér er þá rými til þess að gera þessa viðbótarbraut og þannig á mjög fljótlegan hátt að koma hér upp öruggu umhverfi í fluginu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.

Unnið er að því að ISAVIA yfirtaki allan rekstur og uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli frá áramótum. Miklar efasemdir eru um að hægt yrði að leggja sérstakt varaflugvallagjald á flugfélög. Því er stefnt að því að ISAVIA fjármagni uppbyggingu varavallar á Egilsstöðum úr sínum rekstri meðal annars með tekjum frá Keflavík.

Meira til skiptana fyrir aðra flugvelli

Samkvæmt upplýsingum úr samgönguráðuneytinu verða aðrir flugvellir áfram undir þjónustusamningi við ríkið og hafa hver og einn úr meiru að spila eftir að Egilsstaðir hverfa úr samningnum. „Síðan er Akureyri líka mjög mikilvægur sem varaflugvöllur og augljóslega hin opna fluggátt inn í landið fyrir utan Keflavík. Þar hefur það gengið best. Reykjavíkurflugvöllur sömuleiðis sem varaflugvöllur og þetta verður sífellt mikilvægara ekki bara út af flugöryggi heldur líka út af loftslagsmálum; að það séu hér öflugir varaflugvellir sem geta tekið við flugvélum. Þá geta menn borið minna flugeldsneyti hér á milli og það er loftslagsmál,“ segir Sigurður Ingi.

Ráðherra fór yfir málið á miðstjórnarfundi

Eftirfarandi orð lét ráðherra falla í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem haldinn var á Akureyri í síðasta mánuði en fréttastofa fékk textann sendann frá aðstoðarmanni.  „Það má alveg setja spurningarmerki við það af hverju íslenska ríkið ætti að niðurgreiða rekstur varaflugvalla fyrir millilandafarþega. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er að ISAVIA taki að sér rekstur og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar. […] Það að ISAVIA taki við rekstri og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar býr til svigrúm strax á næsta ári sem felst í viðbótarfjármagni sem nýtist til viðhalds á öðrum flugvöllum. Ástandið er vægast sagt orðið mjög bágborið víða og of lítið fjármagn fer í flugvöllinn á Akureyri. Með því að ISAVIA taki að sér Egilsstaðaflugvöll þá verður hægt að setja meira fjármagn til annarra flugvalla, m.a. hér á Akureyri. Við viljum að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðarflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta. Í því sambandi er einnig ánægjulegt að segja frá því að við aðra umræðu fjárlaga þá var gerð breytingartillaga um að leigja eða kaupa húsnæði sem nýtist sem stækkun á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Samhliða þessu er unnið að því að finna leiðir til þess að auka fjármagn og nýta í viðhald á flugvöllum landsins og jafna aðstöðumun landsmanna,“ sagði Sigurður Ingi á miðstjórnarfundinum.