Árið 2016 leitaði Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir til augnlæknis þar sem hún hafði orðið vör við sjóntruflanir. Nú tæpum þremur árum síðar er hún orðin lögblind, hætt að keyra og komin með leiðsöguhund.
Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir er fædd heyrnarskert en greindist þó ekki fyrr en fjögurra ára gömul og fékk þá heyrnartæki. Elín er fædd 1976 og átti erfiða skólagöngu sökum heyrnarskerðingarinnar en er í dag menntaður þroskaþjálfi með BA í félagsráðgjöf og diplóma í fötlunarfræðum og móðir tveggja drengja sem eru fæddir 2016 og 2010.
Árið 2016 leitaði Elín til augnlæknis þar sem henni fannst sjónin orðin eitthvað skrítin, sjóntruflanir, mikil ljósfælni og skuggar í sjónsviðinu. Þaðan var henni vísað til augnlæknis á LSH og hún fór í gegnum greiningarferli þar sem hún var greind með RP eða retinitis pigmentosa sem er hrörnunarsjúkdómur í augum þar sem sjónsviðið þrengist niður í rörsýn með tímanum og mismunandi er hvort fólk verður alblint eða heldur einhverri rörsjón.
Flest með þennan hrörnunarsjúkdóm eru orðin lögblind um fertugt og jafnvel búin að fá kuðungsígræðslu líka. Á þessum tímapunkti var Elín rétt að verða fertug, en hún er fædd 1976. Augnlæknir Elínar taldi að hún ætti töluvert í land að ná „meðaltalinu“ og að hrörnunin yrði eflaust hæg. En því miður var það ekki raunin, því í dag er hún orðin lögblind, hætt að keyra og komin með sterkari heyrnartæki og með leiðsöguhund.
Elín segir að greiningin hafi verið mikið áfall og hún upplifði mikla reiði yfir örlögum sínum, en síðan fór hún í gegnum mikla sjálfsskoðun og sjálfsvinnu og í dag reynir hún að taka einn dag í einu.
Í síðustu viku hélt Elín Ýr erindi á námskeiði hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð Blindrafélagsins í samvinnu við Norrænu velferðarskrifstofuna í Stokkhólmi, þar sem fjallað var um fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Þar kynnti Helen Engh sænskur félagsráðgjafi lífsbreytinga- og aðlögunarferli í fjórum stigum og Elín sagði sína sögu og frá sinni upplifun af ferð sinni gegnum þessi fjögur stig.