Akureyringurinn Aldís Kara Bergsdóttir brýtur blað í íslenskri listskautasögu á föstudaginn þegar hún keppir á HM ungmenna í Eistlandi, fyrst Íslendinga. Við slógumst í för með Aldísi í vikunni þar sem hún æfði af kappi fyrir HM í Egilshöll.

Aldís Kara Bergsdóttir er 16 ára Akureyringar en þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið ein fremsta listskautakona landsins síðustu ár. Hún var ekki nema fimm ára gömul þegar svellið og skautarnir byrjuðu að heilla.

„Þegar ég var yngri þá fann ég að ég var farin að vera aðeins betri, þannig ég bað um að láta færa mig upp um flokk. Nema það var ekki fyrr en svona 2012-2013 þegar ég byrjaði að taka þessu alvarlega. Því ég átti heima í innbænum og var mikið að flakka og ekkert að hugsa um hvenær ég átti að fara á æfingu. Mætti stundum stundum seint á æfingar og ekki í réttu fötunum, en svo árið 2012-2013 byrjaði ég að taka þessu hundrað prósent alvarlega.“ 

Tékkinn Darja Zajcenko keppti sjálf í listhlaupi á skautum á sínum yngri árum en hún kom hingað til lands sem gestaþjálfari fyrir rúmlega tveimur árum. Hún endaði hins vegar sem yfirþjálfari Aldísar og annarra í Listhlaupadeild Skautafélags Akureyrar.

„Hún setur miklar kröfur á mann en samt ekki of miklar þannig að maður verði bara stressaður. Hún finnur jafnvægið á milli hvers skautara og hversu mikið hún þarf að setja á hvern.“

Finnurðu fyrir því að fólk í bænum sé farið að taka eftir þínum árangri?

„Já, aðeins, af því það er búið að fjalla svolítið mikið um mig síðustu daga, um árangurinn hjá mér. Þannig já, mér finnst eins og fólk taki meira eftir skautum en þau gerðu áður fyrr.“

Aldís Kara tryggði sér nefnilega sæti á heimsmeistaramóti ungmenna á listskautum, fyrst Íslendinga, með frábærum árangri á Norðurlandamótinu í byrjun febrúar. HM hefst í Tallinn í Eistlandi á morgun en aðeins 48 af bestu listskautakonum heims keppa á mótinu. Og leiðin á HM hefur verið löng og ströng.

„Ég var sem sagt búin að plana að reyna að ná lágmörkunum, því ég var búin að ná þeim hér á Íslandi, nema þau teljast þá ekki með því þetta er ekki utanlandsmót hjá ASU. Ég ákvað að reyna að gera það í Búdapest í október á Halloween cup. Ég náði fyrri hlutanum þá, nema svo gekk mér ekki nógu vel. Ég náði því ekki heldur á Reykjavíkurleikunum þannig það var orðin svolítil pressa á manni á Norðurlandamótinu. Þegar ég náði því var ég í sjokki. Ég átti smá von á því af því mér gekk vel.“