Valur varð um helgina Íslandsmeistari kvenna í fótbolta eftir harða baráttu við Breiðablik um titilinn. Valur hafði ekki unnið Íslandsmeistaratitilinn síðan 2010. RÚV settist niður með Pétri Péturssyni þjálfara Vals á Hlíðarenda í dag og ræddi leiktíðina.
Baráttan um Íslandsmeistaratitilinn í ár var í raun alltaf tveggja hesta hlaup milli Vals og Breiðabliks. Pétur segir það þó ekki hafa verið neitt mál að halda sínum leikmönnum á tánum allt Íslandsmótið. „Ég er auðvitað með mikla reynslu í þessu liði og miklar keppnismanneskjur og það hjálpaði rosalega mikið til,“ sagði Pétur í dag.
Valsliðið er fullt af leiðtogum og landsliðskonum sem Pétri finnst gott að hafa í sínu liði. „Mér finnst það æðislegt að hafa leikmenn sem hafa skoðanir og segja hana líka. Mér finnst frábært að vinna með svona leikmönnum,“ sagði Pétur.
Þrír leikmenn enduðu markahæstir í Pepsi Max deild kvenna í sumar með 16 mörk. Berglind Björg Þorvaldsdóttir úr Breiðabliki og svo Valsararnir Elín Metta Jensen og Hlín Eiríksdóttir. Þá skoraði Margrét Lára Viðarsdóttir 15 mörk. Þannig ljóst er að Pétur hafði ansi fjölbreytt vopnabúr fram á við í sumar. „Elín Metta [Jensen] var náttúrulega í toppformi í sumar. Fanndís [Friðriksdóttir] kemur til baka frá Ástralíu og hafði æft mjög vel fyrir mót og svo var þetta alltaf spurning um Hlín [Eiríksdóttur]hvenær hún myndi blómstra eins og hún gerði í sumar. Maður hafði það alltaf á tilfinningunni. Og svo var ég auðvitað með Margréti Láru [Viðarsdóttur] þarna fyrir aftan sem að les leikinn rosalega vel, skorar sín mörk og spilar boltanum á rétta staði.“
Pétur bjóst alltaf við Margréti Láru svona öflugri í sumar, þrátt fyrir að hafa misst af næstum tveimur árum í boltanum vegna meiðsla og barneigna. „Já, ég átti það. Ég held að svona manneskja eins og Margrét Lára hafi eitthvað ætla að koma hérna bara til að vera með. Hún ætlaði að koma hingað til þess að vinna og skora eins mikið af mörkum og hægt var.“
Þetta var annað árið sem Pétur stýrði Valskonum og þó liðið hafi verið gott í fyrra var það enn sterkara núna, enda varð Valur Íslandsmeistari. „Já, við fengum auðvitað Margréti Láru og Dóru Maríu [Lárusdóttur] og Mist [Edvardsdóttur] inn í hópinn frá því árinu áður og Elísu [Viðarsdóttur] líka. Þetta eru allt rosalega stórir póstar í okkar liði. Svo fengum við Öddu [Baldursdóttur] inn í liðið, Lillý [Rut Hlynsdóttur] og Guðnýju [Árnadóttur] og Fanneyju [Einarsdóttur]. Þannig að þetta var bara frábær hópur sem ég var að vinna með í ár,“ sagði Pétur um leikmannahópinn.
Valur hafði ekki orðið Íslandsmeistari kvenna í fótbolta síðan 2010 þrátt fyrir mikla hefð á Hlíðarenda. En upplifði Pétur pressu á að landa titlinum? „Ég ætla ekki að segja að það hafi verið einhver pressa á mér persónulega. En ég fann alveg fyrir því að stelpurnar fundu fyrir pressu. Umræðan sem slík var alls staðar þannig að ef Valur myndi ekki vinna yrði það mesta hneisa í Íslandssögunni. Sem er náttúrulega bara djók. En auðvitað var mikil pressa á stelpunum að klára þetta. Það er alveg ljóst.“
Valsliðið fór taplaust í gegnum Íslandsmótið, en það gerði Breiðablik reyndar líka. Valur og Breiðablik voru því augljóslega með bestu lið landsins í ár. Þorsteinn Halldórsson þjálfari Breiðabliks var með Pétri í þjálfarateymi Rúnars Kristinssonar í karlaliði KR í nokkur ár og þeir þekkjast því vel. „Við Steini töluðum mikið saman í sumar. Við vorum alltaf að spjalla við hvorn annan og bera mikla virðingu hvor fyrir öðrum. Þetta voru auðvitað bara tvö frábær lið sem börðust um titilinn. Þegar uppi var staðið þá bara vorum við aðeins sterkari en Blikar.“
Valur er ekki bara Íslandsmeistari kvenna í fótbolta, heldur unnu kvennalið félagsins Íslandsmeistaratitlana í körfubolta og handbolta í vor. En hvernig stendur á því að kvennalið félagsins eru jafn öflug og raun ber vitni? „Það er bara rosalega vel staðið að öllu hér í Val. Ég hafði náttúrulega aldrei þjálfað hérna áður en hef fengið að kynnast að því hvað er vel staðið öllu í kringum kvennafótboltann, handboltann og körfuna og þetta er bara gert vel. Mjög vel fyrir okkur,“ sagði Pétur.
Eins og áður segir var Pétur að ljúka sinni annarri leiktíð með Valskonur. Pétur hafði þjálfað karla í áraraðir á undan, meistaraflokka Keflavíkur, Víkings, KR og Fram auk þess að hafa þjálfað unglingaflokka hjá KR og Breiðabliki og verið aðstoðarþjálfari hjá KR og HK svo eitthvað sé nefnt. Þá var Pétur líka aðstoðarlandsliðsþjálfari í tíð Ólafs Jóhannessonar hjá íslenska landsliðinu. Pétur var aðstoðarþjálfari hjá Jóhannesi Karli Guðjónssyni í HK 2017 en þegar Jóhannes var ráðinn þjálfari ÍA þá um haustið ákvað Pétur að hætta í boltanum.
„Ég hætti á sunnudegi 2017 í október minnig mig. Svo er hringt í mig á sunnudagskvöld og spurt hvort ég hafi áhuga á að taka við kvennaliði Vals. Á mánudegi var ég búinn að semja við Val. Þetta var svosem aldrei hugsun. Ég var eiginlega hættur í fótbolta á þessum tíma. En sem betur fer er ég ekki hættur ennþá,“ sagði Pétur um það af hverju hann tók við Valsliðinu.
En hvernig er það að þjálfa konur eftir að hafa þjálfað karla svona lengi? „Eigum við ekki að segja að fyrsta árið hafi það verið frekar lærdómsríkt eða ég þurft að læra inn á hlutina. En samt sem áður er þetta bara fótbolti. En maður þarf kannski að finna það hjá sér sjálfum hvernig er best að gera það. Það er kannski munurinn á karla- og kvennaboltanum. En mér finnst þær miklu miklu harðari af sér heldur en karlmenn sem ég hef þjálfað allavega,“ sagði Pétur sem útskýrði það svo frekar.
„Bara hvernig þær æfa til dæmis. Svo koma þær með börnin sín með sér á æfingar. Ég hef aldrei komið með barn á æfingu. Þær mæta óléttar á æfingar hérna og æfa þangað til þær fæða liggur við. Þannig að það er rosaleg seigla í öllum þessum hóp hjá mér og mikill metnaður í öllu sem þær gera. Það snérist eingöngu um það að vinna þennan titil í sumar,“ sagði Pétur.
Pétur er aðeins annar þjálfarinn í Íslandssögunni til að gera bæði meistaraflokkslið karla og kvenna að Íslandsmeisturum í fótbolta. Pétur þjálfaði KR sem vann titilinn árið 2000. Aðeins Logi Ólafsson getur líka státað sig af því að hafa þjálfað Íslandsmeistara karla og kvenna í fótbolta. Logi byrjaði þó að þjálfa í kvennaboltanum, en það hefur nú oftar verið leiðin hjá þjálfurum sem hafa þjálfað bæði kyn. Pétri finnst þetta þó vera að breytast.
„Í mínu tilviki var það nú bara þannig að ég hafði bara aldrei verið beðinn um það að þjálfa kvennalið. Það hafði kannski verið ástæða fyrir því að ég hafði ekki þjálfað kvennalið. Þannig við höfum kannski ekki verið eins spurðir og má gera.“
Pétur gerir ekki ráð fyrir miklum breytingum á leikmannahópi Vals fyrir næstu leiktíð. En sjálfur gerir hann ekki ráð fyrir öðru en að vera áfram við stjórnvölinn, þar sem samningurinn sem hann gerði haustið 2017 er til þriggja ára. En Pétur er líka með öflugt starfslið í kringum sig og liðið. „Ég var heppinn að fá Eið Ben [Eiríksson] með mér sem aðstoðarþjálfara. Hann er einn efnilegasti þjálfari landsins. Eða einn af betri þjálfurum landsins finnst mér. Jói fitness er bestur í sínu fagi. Svo er maður nátturulega með Ástu [Árnadóttur] sjúkraþjálfara og Maríu [Hjaltalín] og Thelmu [Guðrúnu Jónsdóttur] liðsstjóra og Rajko [Stanisic] markmannsþjálfara. Þannig að það er staðið vel að öllu hérna og ég þakka þessu fólki fyrir frábært framlag í sumar,“ sagði Pétur Pétursson þjálfari Vals, Íslandsmeistara kvenna í fótbolta í viðtali við RÚV í dag.