Sigríður Eyrún Friðriksdóttir og Karl Olgeir Olgeirsson eignuðust soninn Nóa Hrafn í fyrra en hann lést skömmu eftir fæðinguna vegna mistaka starfsfólks. Fjallað verður um málið í Kastljósi í kvöld, rætt við foreldrana og sérfræðinga auk þess sem fulltrúi Landspítala ræðir málið. Fram kemur í umfjölluninni að þetta sé alvarlegasta mál sinnar gerðar á spítalanum.

„Miðað við mæðraskýrsluna held ég að það sé um fjögur fimm leytið sem þau fatta að það er fyrirstaða,“ segir Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. „Þau eru að láta mig fara í alls konar stellingar til að rembast. Ég skildi þetta ekki. Ég fann ekki rembingstilfinningu af því að ég var mænudeyfð. Ég skildi ekki af hverju ég var að rembast, bara að láta hann lemja hausnum í vegg, bókstaflega. Ég byrjaði að biðja um keisara, hvort sem það hefði verið keisari eða hvað: Ég var bara að biðja um hjálp.

Sigríður Eyrún sagði að það hefði aldrei komið sérfræðingur til að meta þetta. „Við erum inni á spítala. Það er ekki eins og við höfum verið einhvers staðar uppi í sveit, einhvers staðar þar sem var ekki hægt að ná í lækni. Hann var í næsta herbergi. Það var aldrei kallað á hann.“

Karl segist allan tímann hafa átt von á að læknirinn myndi koma til þeirra. Það hafi aldrei gerst. „Það er eins og það verði vaxandi fát, meiri hraði á öllu. Ljósmæðurnar eiga erfitt með að skrúfa skrúfurnar rétt og ná lokinu af. Vírinn er að detta af fósturritanum. Á einum tímapunkti taka þær eftir því að hann er ekki tengdur. Alls konar sem mér fannst ekki traustvekjandi þá.“

Vaktaskipti voru meðal ljósmæðra meðan á þessu stóð. Sigríður segir að fyrir og eftir þau hafi þurft að berjast fyrir því að fá lækni. Sú ljósmóðir sem tók við hafi þó séð fljótlega að ekki var allt í lagi. „Klukkutíma eftir að hún mætir í vinnuna var hann dáinn.“