„Það er alveg staður og stund til að eiga ákveðin samtöl en ég hef lent í því í grænmetisdeildinni í Bónus að einhver hefur komið og spurt hvort ég sé búin að fara í kynleiðréttingaraðgerð,“ segir aktívistinn, rithöfundurinn og kvikmyndagerðarkonan Ugla Stefanía Jónsdóttir.

Gestur Sigmars Guðmundssonar í þættinum Okkar á milli í kvöld var nýverið valinn ein af hundrað áhrifamestu konum heims af BBC. Á listanum eru tilgreind nokkur verkefni sem hún hefur unnið að, en hún er meðal annars meðleikstjóri My Genderation sem er metnaðarfullt kvikmyndaverk um líf trans fólks. Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Íslands, hefur marga slagi tekið fyrir trans fólk, ekki aðeins hér á Íslandi heldur einnig til dæmis í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Líkt og flest trans fólk fær Ugla Stefanía mikið af skrýtnum spurningum, jafnvel í viðtölum á stærstu og þekktustu miðlum heims. Sumar spurningar sem eru litaðar af fordómum en aðrar af forvitni um fjölbreytileika mannlífsins. Henni finnst sjálfsagt að fólk spyrji spurninga enda hefur hún sjálf að mörgu leyti tekið það að sér að svara þessum spurningum með því að vekja athygli á málefnum trans fólks. „Mér finnst þó að fólk þurfi aðeins að spá í það við hvern það er að tala og hvar það er. Það er alveg staður og stund til að eiga ákveðin samtöl en ég hef lent í því í grænmetisdeildinni í Bónus að einhver hefur komið og spurt hvort ég sé búin að fara í kynleiðréttingaraðgerð,“ segir hún kímin. „Heyrðu, ég ætla aðeins að teygja mig í paprikuna og segja þér frá kynfærunum mínum!“

Ugla segir því mikilvægt fyrir forvitna að spá aðeins í það hvernig eðlilegt sé að nálgast manneskju til að tala um svo persónuleg mál og bætir því við að alls ekki allt trans fólk sé tilbúið til að svara slíkum spurningum ókunnugs fólks og síst af öllu hvar og hvenær sem er. „Sumum finnst það óþægilegt eða líður illa að svara. Fólk þarf heldur ekki að taka þetta samtal klukkan tvö á laugardagsnóttu í einhverju partíi, það þarf að leyfa fólki að vera það sjálft.“

Skynsamasta lausnin á málinu að mati Uglu er að spyrja fyrst hvort viðkomandi vilji svara spurningum um trans málefni eða kynleiðréttingu sína. „Þá getur fólk bara svarað já eða nei,“ segir hún og brosir.

Í fjórða þætti af Okkar á milli sem er á dagskrá RÚV eftir tíufréttir í kvöld ræðir Sigmar Guðmundsson við Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur.