„Ég fékk bara nóg af þessu,“ segir rapparinn Birgir Hákon sem nýlega sagði skilið við áfengi og vímuefni. „Ég var bara búinn að hitta einhvern botn í minni neyslu.“ Birgir deildi reynslu sinni í Endalausu útvarpi, þriggja sólarhringa maraþonútsendingu RÚV núll til að vekja athygli á vímuefnavanda ungmenna og söfnunarátakinu Vaknaðu!

Birgir fór ekki í meðferð en segist hafa leitað sér þeirra hjálpar sem hann þurfti. Í lögum sínum rappar Birgir Hákon mikið um að selja eiturlyf, hann „lifi lífi fíkniefna- og ofbeldisbrota.“ Hvernig líður honum með þessi lög eftir að hann er orðinn edrú? „Þetta er náttúrulega bara tjáning og list. Ég tala oftast um tímann sem er í gangi. Það er mikið búið að breytast upp á síðkastið. En þetta er bara eins og þetta er. Ég sé ekki eftir neinu, þannig séð. En ég augljóslega styð ekki fíkniefnaneyslu- eða sölu.“

Birgir lýsir yfir efasemdum um að rapptónlist spilli ungdómnum og sé hvetjandi til fíkniefnaneyslu. „Það er bara persónubundið. Ég man að ég horfði á Scarface þar sem maður er sagaður í sundur með keðjusög. Mér fannst þetta bara geðveikt, sem sagði dáítið mikið um það hvernig ég hugsaði sem krakki.“

Það var mikil neysla í kring um hann í æsku og hann byrjaði ungur að drekka. „Svo varð ég frekar stjórnlaus í glasi, þannig ég þurfti eitthvað til að rétta mig við.“ Í sínu nýjasta myndbandi, Starmýri, ber mikið á vafasömum partíum, vopnaburði, reiðufé og glingri, auk þess sem Birgir Hákon og félagar lendra ítrekað í útistöðum við lögregluna. Hverju sætir þetta eftir að hann er orðinn edrú? „Ég er bara að sýna þetta nákvæmlega eins og þetta var,“ segir Birgir og vísar í sitt fyrra líf sem hann hefur nú yfirgefið. „Ég er ekkert að reyna að fegra þetta, bara sýna það frá mínu sjónarhorni.“