Hrafnhildur Gunnarsdóttir leikstýrir heimildarþáttum um baráttu homma og lesbía sem sýndir verða í sjónvarpinu í haust. Verkefnið tók 27 ár og er ein yfirgripsmesta heimild sem unnin hefur verið um málefnið.
Svona fólk eru heimildarþættir um mannréttindabaráttu homma og lesbía á Íslandi en þeir verða á dagskrá á RÚV í haust. Þættirnir, fimm talsins, hefja göngu sína síðla september. Fyrstu tveir þættirnir voru sýndir í Bíó Paradís í fyrra og sá þriðji var sýndur þar á sunnudag í tilefni Hinsegin daga í Reykjavík. Lokaþættirnir tveir eiga enn eftir að koma fyrir almenningssjónir.
Verkefnið hefur verið í 27 ár í vinnslu, en Hrafnhildur Gunnarsdóttir leikstjóri þáttanna byrjaði að vinna þá árið 1992. „Á þessum tíma skynjaði ég að það væri ýmislegt að gerast í íslensku samfélagi en samhliða því vorum við eiginlega í auga stormsins hvað varðar alnæmi og HIV,“ segir Hrafnhildur. „Ég ætlaði að klára á ýmsum tímabilum, árið 1999, árið 2005 og 2014 var ég að moka þessu en sem betur fer þá tafðist þetta. Í raun má segja að ég hafi náð að fylgja því eftir að allt lagalegt misrétti gagnvart samkynhneigðum væri leiðrétt.“
Alnæmisfaraldurinn
Þriðji þátturinn, Plágan, fjallar einmitt um alnæmisfaraldurinn. Hrafnhildur segir að það hafi verið sérstaklega erfitt fyrir sig að vinna þann þátt. „Ég er búin að starfa með nokkrum í gegnum tíðina og ég hafði sett efnið í hendurnar á Höllu Kristínu Einarsdóttur samstarfskonu minni og hún klippti drögin að fyrsta þættinum en ég vildi aðeins standa fyrir utan það. Þegar kom hins vegar að því að horfa þá þyrmdi yfir mig. Það gera sér ekki allir grein fyrir hvað þetta var mikið áfall að horfa á jafnaldra sína veikjast, veslast upp og deyja í þessari plágu sem enginn sá fyrir endann á.“
Markmiðinu náð
Í fyrstu þáttunum er dregin upp mynd af samfélaginu fyrir mörgum áratugum þegar samkynhneigð var, líkt og hinsegin fólk allt, nánast ósýnileg. Þættirnir enda hins vegar þegar tugþúsundir flykkjast í miðbæ Reykjavíkur í Gleðigönguna 2015 til að fagna fjölbreytileikanum með hinsegin samfélaginu. Leiðarlokum verkefnisins var svo loksins náð árið 2016 en þá urðu ákveðin vatnaskil í baráttunni. „Þarna er hætt að mismuna okkur. Þegar hjúskaparlögin eru sett hefði ég getað sett endapunktinn en 2015 gefur kirkjan sig og þá fannst mér þetta lagalega leiðrétt.“
Átök innan hreyfingarinnar
Árið 2016 stóð þessi 40 ára hreyfing, Samtökin '78, á tímamótum. „Fólk var ósátt við stjórn samtakanna og margir af gömlu félögunum hurfu út þegar okkur fannst dreginn upp málstaður sem sumum fannst ekki eiga heima í félaginu. Þetta var þegar BDSM vildi koma og setjast á kjólinn hjá okkur,“ segir hún.
Þetta var þó ekki í fyrsta skipti, að sögn Hrafnhildar, sem átök urðu innan hreyfingarinnar þegar aðrir hópar en samkynhneigðir vildu aðild. „Fyrst voru það tvíkynhneigðir, bísexúal sem vildu eiga heima innan hreyfingarinnar og það varð sundrung á þeim tíma sem þau komu að dyrunum. Kannski er þetta mér sjálfri að kenna en ég þjónaði sem formaður samtakanna 2005-07 og þá fannst mér réttast að trans fólk fengi að vera með og vann í að koma þeim undir hatt samtakanna en þá víkkaði konseptið út. Þá var búið að búa til þessa regnhlíf en eftir á að hyggja hefði kannski verið réttast að stofna hliðarhópa og ný regnhlífarsamtök yfir þetta og samtökin hefðu átt að vera áfram félag homma og lesbía.“ Hún fullyrðir að hreyfingin hafi sprungið í loft upp og sá atburður hafi markað endapunkt fyrir sig. „Ég geri þessu öllu skil í lokin.“
Orðfæri um homma og lesbíur hefur þróast í gegnum tíðina og í dag er orðið hinsegin fólk notað sem samheiti yfir þá hópa sem heyra undir hinsegin regnhlífina. Hrafnhildur segist sjálf ekki samsama sig orðinu hinsegin. „Það er búið að kalla okkur kynvillinga, kynhverfinga, hýr, homma, lesbíur og öllu mátti maður eiga von á. En ég persónulega álít mig ekki hinsegin því mér finnst við hafa náð jafnrétti.“
Vera Illugadóttir ræddi við Hrafnhildi Gunnarsdóttur í Morgunvaktinni en hlýða má á viðtalið með því að smella á spilarann efst í fréttinni