Ein aðsóknarmesta kvikmyndin í bíóhúsum á Íslandi þessa stundina er án efa Avengers: Endgame sem er lokakaflinn í bálki Marvel-myndanna. Kvikmyndin var til umræðu í Lestarklefanum þar sem kvikmyndagerðarmaðurinn Ísak Hinriksson viðurkenndi að hafa kastað upp eftir sýningu.
Kvikmyndin Avengers: Endgame hefur slegið öll aðsóknarmet frá því hún var frumsýnd og mun eflaust gera það gott í kvikmyndahúsum hér heima. Kvikmyndin skartar leikurum á borð við Robert Downey Jr., Scarlett Johansson, Marg Rufffalo og Chris Hemsworth sem öll leika ofurhetjur í liði Hefnendanna. Eftir hamfarirnar frá því í kvikmyndinni Avengers: Infinity War þá er alheimurinn í rúst, og hetjurnar þurfa að standa saman til að koma lagi á hlutina á ný. Þau Valur Grettisson ritstjóri Reykjavík Grapevine, Sigþrúður Silju- Gunnarsdóttir ritstjóri á Forlaginu og Ísak Hinriksson kvikmyndagerðarmaður voru gestir Bergsteins Sigurðssonar í Lestarklefanum á föstudag og ræddu myndina í þaula.
„Já, ég á son sem fæðist 2008 sem verður fljótt heltekinn að Marvel-heiminum, ofurhetjuheiminum. Ég hefði líklega ekki séð þær allar ef ekki væri fyrir hann,“ segir Valur Grettisson ritstjóri sem segist hafa séð fyrri myndina, Infinity War og hafi haldið að sú nýja myndi hefjast á einhverri sprengingu. „En þeir róa aðstæður strax og hefst myndin fimm árum eftir að búið er að stráfella út nærri helming allra lífvera í veröldinni allri. Ef helmingur mannkyns myndi deyja á morgun, svona eins og í myndinni, þá væri sami fólksfjöldi og var árið 1990. Við getum ímyndað okkur hversu mikil fólksfjölgun hefur verið frá þeim tíma. Ég væri til í þá sögu eina og sér, en þeir einbeita sér ekkert að henni. Það er rétt svo sýnt að enginn hirðir rusl neitt lengur, hinn helmingurinn af mannkyninu sá greinilega um það,“ segir Valur Grettisson.
Kvikmyndagerðarmaðurinn Ísak Hinriksson er yngstur viðmælanda og hefur alist upp samhliða sögu Marvel myndanna en hefur þó ekki lagt sig fram við að sjá allar myndirnar. „Nei, þetta hefur skautað fram hjá mér. Ég hef kannski séð þriðjunginn af þessu. Þegar þú sendir á mig að við ætluðum að ræða Avengers þá verð ég að viðurkenna að ég saup bara hveljur. Ég ákvað þó að fara með jákvæðu hugarfari. Ég verð bara að segja það að þetta er ein leiðinlegasta mynd sem ég hef farið á,“ segir Ísak sem var hissa á þeim mannlegu hliðum ofurhetjanna sem voru í forgrunni í byrjun myndar. „Ég hef heyrt að pabbar sem fara með krakkana sína fái fyrir hjartað þarna í lokin, fólk hefur komið út grátandi úr salnum. Ég bara næ engu sambandi við þetta. Ég veit ekki hvort ég ætti að deila því með ykkur en ég labbaði út og ældi eftir myndina. Ég veit ekki hvort það tengist myndinni eða snakkinu sem ég borðaði á meðan ég horfði,“ segir Ísak Hinriksson.
„Ég hef séð einhvern slæðing af teiknimyndamyndum í gegnum tíðina með dætrum mínum. Spiderman hef ég séð einhvern tímann í mynd en hvort það tilheyri þessum bálki, ég bara veit það ekki,“ segir Sigþrúður Silju- Gunnarsdóttir ritstjóri á Forlaginu sem minnist á að hugmyndin um að troða mörgum hetjum í eina sögu sé eldri en hana grunaði. „Þetta er ofgnóttin, við viljum fá allt í einu, taka allt sem okkur finnst skemmtilegt og setja það á einn stað. Svo las ég það í dag á netinu að þetta var fyrst gert í blaði árið 1963. Þetta er draumur teiknimyndasagnaunnandans, að fá allar skemmtilegustu persónurnar, allar mestu hetjurnar í eina sögu. Þetta er svo klassísk sögubygging að það skiptir varla máli hvaða sögupersónur þetta eru. Þetta er svo samkvæmt bókinni að þekki maður klassíska söguuppbyggingu svona eins og Aristóteles lýsti henni á sínum tíma, þá getur maður skilið þessa mynd eins og aðrar,“ segir Sigþrúður.