„Mér finnst ferillinn hafa verið ágætur. Stundum hefur þetta verið erfitt en ég held þetta hafi bara verið gaman,“ segir myndlistarmaðurinn Magnús Pálsson um eigin listsköpun. Ný yfirlitssýning með verkum Magnúsar verður opnuð í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur í dag, en sýningarstjórar eru Sigurður Trausti Traustason og Markús Þór Andrésson.

Titill sýningarinnar er Eitthvað úr engu en Markús Þór Andrésson sýningarstjóri segir hann beina tilvitnun í gamalt viðtal við Magnús þar sem hann var að tala um eitt af lykilverkum sínum, Hundljóð (1970), sem vakti mikla athygli á sínum tíma og þar sem hundur úr gifsi og hálmi hrörnar og nánast hverfur en byggist svo upp aftur í röð skúlptúra.

„Í þessu samhengi greip Magnús til tungumálsins og benti á að rétt eins á við um orð í ljóði sem eru háð því samhengi sem þau eru í hverju sinni þá tapi ljóðið merkingu sinni ef eitt orð er tekið úr því. Sama megi segja um hundinn, ef einn þáttur verksins er tekinn úr því þá breytist það bara í hálm og gifs,“ segir Markús í viðtali í Víðsjá á Rás 1. „Mér finnst þetta falleg hugsun um þessi gullgerðarlistar áhrif myndlistarinnar að maður geti gert eitthvað úr engu eins og listamenn eru alltaf að gera. Þeir finna sífellt einhvern efnivið sem er í sjálfu sér einskis virði og gera eitthvað dýrmætt úr honum.“ Magnús tekur undir þetta, að hann hafi verið að stunda einhvers konar gullgerðarlist. „Ég vildi nú geta gert meira af gulli,“ segir hann og brosir.  

Magnús var í samfloti við SÚM-hópinn á sínum tíma og var hluti kynslóðar listamanna sem kom með nokkuð nýja listhugsun inn í íslenska myndlist. Þessari nýju list var ekki alltaf tekið vel.

„Það er alveg satt þetta var fjandans barningur. Manni var aldeils ekki vel tekið en ætli það hafi ekki alltaf verið þannig, til dæmis var abstraktlistamönnunum ekki alltaf vel tekið í byrjun. Þetta gat verið erfitt en ég er líka á því að þetta hafi verið svolítið gaman,“ segir Magnús sem er á því að það sé hlutverk listamannsins að spyrja spurninga um ríkjandi sjónarmið og viðhorf sem eru ríkjandi á hverjum tíma. „Það fellur aldrei vel í kramið,“ bætir hann við. 

Myndlistin breytir manni

Markús bendir á að Magnús hafi oft talað um það í gegnum tíðina að það að starfa í myndlist breyti manni. „Mér finnst fallegt hvernig Magnús hefur talað um að myndlist hafi áhrif á hvernig maður horfi á heiminn og skynji hann. Það að vera í þessari hugsun myndlistarinnar sé skapandi ferli,“ segir Markús og bendir á að Magnús hafi haft mikil áhrif á að gera þessa skoðun útbreidda hér á landi. „Sama hvar borið er niður í íslensku menningarlífi, ekki bara í myndlist heldur í leikhúslífi og víðar, má sjá áhrif frá þeirri hugsun Magnúsar og ljóst að hann hefur lagt mikið á vogarskálarnar. Þá erum við að tala um hvernig fólk blandar saman lífi og list og lítur svo á að ferlið í listsköpuninni skipti mestu máli. Þarna tel ég að Magnús eigi stóran hlut.“

Magnús bendir á að eðlisbreytingin sem komi til sögunnar með hugmyndalistinni sé að þá séu listaverkin kannski ekkert endilega áhugaverð sjónrænt og þaðan af síður falleg, heldur höfði þau til hugsunarinnar. „Listin fer að gerast í hausnum, meira en í brjóstinu eða augunum.“ Markús bendir á að sér finnist aukin hlutdeild áhorfandans í listaverkinu, með sínum hugsunum, lestri og tengingum, vera í eðli sínu mjög falleg hugmynd. 

Maður losar sig ekki við þetta

Sem kennari hefur Magnús haft mikil áhrif á kynslóðir listamanna, enda þekkt þegar hann kallaði kennsluna geggjuðustu listgreinina. Hann hefur einnig skapað nýstárlegar sviðsmyndir og tilraunakennd leikverk í heimi leikhússins og er ótvíræður frumkvöðull sem gjörningalistamaður, en mörgum af umfangsmeiri gjörningum hans næst ekki að gera mikil skil á nýju sýningunni enda var það gert á sýningu á Listahátíð í Reykjavík 2013. 

En á Magnús sér uppáhalds verk þegar hann litur yfir ferilinn? „Nei, ég held ekki. Sum hverfa svolítið í minningunni, önnur lifa betur af því að þau eru sett þar sem maður sér þau. Maður losnar aldrei við þau og veit af þeim. Svo kemur þetta samt alltaf upp í hausinn því maður getur ekkert losað sig við þetta.“

Sýningin Eitthvað úr engu er í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Nánari upplýsingar má finna á vef safnsins.