Eftir opinbera heimsókn forseta Íslands til Danmerkur fyrr á árinu, þar sem Danadrottning veitti nokkrum Íslendingum orður fyrir vel unnin störf, var þó einn sem enn átti sinn riddarakross inni, því hann átti ekki heimangengt. Þetta var Tryggvi Ólafsson, myndlistarmaður. Menningin ræddi við Tryggva um líf hans og list og fylgdist með því þegar orðan rataði loksins til hans.
Ekkert fyrsta apríl númer
„Ég fékk bara símtal frá sendiherranum í Kaupmannahöfn, sem sagðist telja að ég fengi riddarakross af Dannebrog. Og ég hugsaði með mér: Sá er aldeilis fyndinn í dag. Þetta er ábyggilega bara eitthvert svona fyrsta apríl númer. Ég átti ekki von á að fara að fá einhverja krossa. Ég er bara austan af Norðfirði og hef aldrei átt von á krossi fyrir eitt eða neitt.“ Svona lýsir Tryggvi Ólafsson myndlistarmaður því þegar hann frétti að hann ætti von á orðunni.
Námsdvölin varði í 47 ár
Tryggvi hélt til Kaupmannahafnar til myndlistarnáms um tvítugt, og ætlaði sér að búa úti í fimm til sex ár. Dvölin varð þó alls 47 ára löng, en heimili hans og Gerðar Sigurðardóttur eiginkonu hans stóð íslensku listafólki í borginni opið, og varð eins og óformlegt menningarsendiráð Íslands. Enginn íslenskur listamaður á jafnmörg verk og Tryggvi í opinberum söfnum og einkasöfnum í Danmörku, og enginn íslenskur listamaður hefur haldið þar jafnmargar sýningar.
Stíll er yfirborðslegt hugtak
„Stíll er bara yfirborðslegt hugtak,“ segir Tryggvi þegar talið berst að stefnum og straumum. „Það er eitthvað sem tískan og allir nota. Að búa til myndir er fyrst og fremst vinna,“ segir Tryggvi, sem nýtir tímann þegar hann dvelur á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum og býr til grafíkverk. „Allir þessir stílar og þetta með framtíðina, sem sagt að vera spámenn - ég hef aldrei verið spámaður. Ég er fyrst og fremst rómantíker, og hef alltaf verið það.“