Nýr listamaður hefur kvatt sér hljóðs í íslensku tónlistarflórunni, vopnaður því sem ef til vill fáir notast við sem sitt helsta hljóðfæri, nefnilega nasaflautu. „Ég stefni á heimsfrægð en það er allt fyrir flautuna,“ segir tónlistarmaðurinn Nasarus.

Nasarus spratt upp á sjónarsviðið á dögunum hoppandi kátur með nasaflautu sem sitt aðalhljóðfæri. Lagið hans, Lúsmý, hefur nú suðað á öldum ljósvakans í talsverðum mæli og náð nokkurri hylli. Fáir þekkja listamanninn og hvað hann vill upp á dekk og því var áhugavert þegar Nasarus samþykkti að koma í viðtal við Morgunútvarpið ásamt umboðsmanni sínum, Arnari Snæberg Jónssyni. 

„Ég fékk svona brjálæðiskast bara. Ég var út á svölum með mömmu og hún var öll bitin og ég fór í skemmtarann og hamraði lagið inn alveg bálreiður,“ segir listamaðurinn Nasarus um tildrög bragsins um lúsmýið. Nasarus býr í blokk í Hafnarfirði ásamt aldraðri móður sinni. „Við mamma búum saman, hún lætur mig stundum koma með sér út í sólbað þegar það er gott veður,“ segir Nasarus sem er að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni. „Þetta er annað lagið sem ég sem. Ég er svona að hefja mína vegferð í þessum bransa.“ 

Nasarus hefur gefið út mjög svo fjörugt og fræðandi myndband við lagið Lúsmý og þrátt fyrir þessa árans óværu sem svífur yfir landið þá virðist Nasarus í stuði. Lagið er samið á skemmtara þó Nasarus vilji meina að hann spili ekki meginrulluna. „Það er nasaflautan sem er þarna í aðalhlutverki. Hún er hljómfagrasta hljóðfærið í þessari veröld og hún fær þarna að hljóma afskaplega fallega,“ segir Nasarus. „Það eru einhver þrjú ár síðan ég byrjaði að spila á flautuna, það var eftir að konan yfirgaf mig að ég tók upp flautuna á fullum þunga. Ég stefni á heimsfrægð en það er allt fyrir flautuna, allt fyrir hennar framgang. Ég er bara verkfæri flautunnar,“ segir Nasarus. 

Ef það er einhver sem þekkir þennan nýmótaða listamann sem Nasarus er, þá er það eflaust umboðsmaður hans, Arnar Snæberg Jónsson. „Við Nasarus hófum samstarf fyrir nokkrum mánuðum síðan og erum það nánir að það má nærri því segja að umboðsmaðurinn og listamaðurinn sé einn og sami maðurinn,“ segir Arnar Snæberg og má vart greina mun á þótt Arnar segi muninn talsverðan í hára- og holdafari. „Þetta er verkefni sem farið var í, því að ég held að það sé fátt fallegra í þessum heimi heldur en skemmtarapopp miðaldra karlmanna með frægðardrauma. Þetta er svo einlægt og skemmtilegt og það er nú aðalástæðan fyrir því að við fórum í þetta ferðalag,“ segir Arnar. 

Arnar starfar sem verkefnastjóri hjá velferðasviði Reykjavíkurborgar og hefur einnig komið fram sem eins manns pönkhljómsveit en Nasarus er glænýtt verkefni úr hans ranni. „Nasarus sjálfur varð til á sumbli með meðlimum hljómsveitarinnar Dimmu á Borgarfirði eystra fyrir nokkrum árum síðan. Það var gríðarlega skapandi vettvangur. Ég var óvart með nasaflautuna í vasanum og þeir Geirdal-bræður hrifust mjög af því hvað hún væri ómþýð og falleg,“ segir Arnar um sköpun listamannsins Nasarusar.

Arnar er greinilega ekki við eina fjölina felldur því hann stendur einnig að baki listamanninum Hemúlnum. „Hemúllinn, er eins manns pönkhljómsveit. Hann hefur spilað á Aldrei fór ég suður, Eistnaflugi, Airwaves og fleiri hátíðum,“ segir Arnar sem nýtur þess að vera í eins manns verkefnum. „Það er heilmikið frelsi í því. Stóra frelsið í því er að vera einn í hljómsveit. Þurfa aldrei að velta fyrir sér einhverjum dyntum annarra hljómsveitarmeðlima eða neitt slíkt.“ Þrátt fyrir að Nasarus sé eins manns verkefni fer fjölskylda hans ekki varhluta af því og hafa þurft að hjálpa til við myndbandsgerð og annað. „Þetta er svona heimilisiðnaður. Börn og eiginkona eru virkjuð í því að taka upp myndbönd og fleira. Þannig að þetta er allt mjög skemmtilegt,“ segir Arnar.

Nasarus er rétt að byrja að eigin sögn og hyggur á landvinninga en kann þó ekki neitt í ensku. Það eru þó aðrar stærri hugmyndir í bígerð en bara tónsmíðar. „Það er ekki ný lög í bígerð að þessu sinni en hann er með mjög stóra drauma, hann hyggur til dæmis á landssöfnun. Hann langar til að gefa öllum börnum frá 0-18 ára á landinu nasaflautu, svipað og Stjörnu-Sævar. Ég held að það sé undirliggjandi ástæða hjá Nasarusi að fara í þessa söfnun til að öðlast heimsfrægð,“ segir Arnar Snæberg Jónsson umboðsmaður Nasarusar.