Aktívistinn og tónlistarkonan Sólborg Guðbrandsdóttir stofnaði Instagram-síðuna Fávitar fyrir þremur árum. Hún berst gegn stafrænu kynferðisofbeldi sem virðist grassera á internetinu sem aldrei fyrr en næst á dagskrá hjá henni er hlaðvarp um málefnið.

Á síðunni birtir Sólborg skjáskot af kynferðislegum og ofbeldisfullum skilaboðum sem fólk sendir hvert öðru, oft á ókunnuga. Algengt er að fólk sendi óumbeðnar myndir af kynfærum sínum og jafnvel nauðgunarhótanir í gegnum hina ýmsu miðla. Fjölmargt fólk hefur sett sig í samband við Sólborgu, eftir að hún setti síðuna á laggirnar, sýnt og sagt frá áreitni sem það hefur orðið fyrir. Yngsta stúlkan sem Sólborg hefur rætt við var ellefu ára. Instagram-síðan hefur að geyma stuðandi samskipti sem eru gegnsýrð af ofbeldismenningu og viðbjóði, innan um slagorð og ummæli semhvetja þolendur til að skila skömminni og standa með sjálfum sér. Þarna fara einnig fram feminískar umræður sem Sólborg setur af stað og opnar fyrir skoðanaskipti.

Fylgjendur síðunnar eru þegar komnir yfir 22 þúsund. Að sögn Sólborgar byrjaði síðan sem óskipulagt verkefni gegn kynferðisofbeldi. Kveikjan var stöðug áreitni sem hún hefur sjálf orðið fyrir á internetinu. Hún rakst á sænska stelpu, Linnea Claesson, sem hefur haldið úti svipaðri síðu sem hún kallar hreinlega Assholes online en fávitar er þýðing á því nafni.

Minna rými fyrir karla að opna sig

Síðunni berast bæði skilaboð frá konum og körlum en töluvert fleiri konur hafa sett sig í samband við Sólborgu. „Kynferðisofbeldi er kynjað vandamál og við þurfum að horfa á það sem slíkt,“ segir hún. „Af hverju er meirihluti gerenda karlar og meirihluti þolenda konur? Þetta er valdabarátta en við þurfum líka að velta fyrir okkur hvers vegna það er minna rými fyrir karla að opna sig um ofbeldi sem þeir verða fyrir að hálfu kvenna.“ Sólrún segir að eitt hlutverk síðunnar sé að opna á þá umræðu.

Fólk myndi ekki bjóðast til að gyrða niður um sig í Bónus

Skilaboðum rigndi yfir Sólborgu eftir að hún opnaði síðuna og í desember í fyrra þurfti hún að taka sér pásu, en þá voru skilaboðin orðin um 50 á dag. „Síðan ég kom til baka í febrúar hef ég haft áhersluna öðruvísi. Áður var ég bara að sýna skjáskotin en nú hefur fókusinn verið að ná samtalinu augliti til auglitis.“ Sólborg hefur í ár heimsótt bæði félagsmiðstöðvar og skóla til að taka umræðuna við krakkana. „Ég hef einnig verið að ræða ýmis feminísk málefni frekar en endilega bara ofbeldið sjálft. Við þurfum að skoða af hverju það er til staðar til að byrja með, af hverju fólk er að brjóta á öðrum.“ Sólborg segir sérstaklega umhugsunarvert hvað fólki dettur í hug að senda öðrum yfir netið. „Þau myndu aldrei segja þetta ef þau stæðu fyrir framan manneskjuna,“ fullyrðir hún. „Fólk er að senda óumbeðnar kynfæramyndir, bjóðast til að kaupa afnot af líkama annarra, drusluskamma og hlutgera.“

Samskiptamáti hefur breyst með tilkomu netsins og fólk tilbúið til að láta allt flakka þegar það er falið á bak við tölvuskjáinn. „Fólk leyfir sér miklu meira. Myndi einhver labba upp að mér í Bónus og bjóðast til að kaupa líkamann minn? Bjóðast til að sýna mér kynfærin sín í mjólkurkælinum?“ Á internetinu virðist vera allt að því endalaust rými fyrir slíkan óþverra sem flestallir myndu sverja af sér í fjölskylduboði.

Yngsti þolandinn ellefu ára

Í seinni tíð hefur færst í aukana að ungmenni biðji hvert annað um svokallað „flex“ sem þýðir ekki að hnykkla vöðvana eins og margir myndu túlka það heldur er þetta nýtt slangur yfir að sýna kynfæri. „Það er svo margt fólk sem tekur þátt í þessu samskiptamynstri og heldur að það eigi bara að vera svona.“ Sem fyrr segir er yngsta stelpan sem sent hefur Sólborgu skjáskot af samskiptum sínum við ókunnugan mann aðeins ellefu ára. Hún var að fá óumbeðnar typpamyndir. „Mér finnst ekki að við ættum að bregðast við með því að banna ungu fólki að vera með snjallsíma, við þurfum samt að setja fólkusinn á af hverju er ókunnugur maður að senda ógeðslegar myndir á ellefu ára barn.“

Nafngreinir ekki gerendur af ástæðu

Ungir drengir hafa áreitt Sólborgu með kynferðislegum skilaboðum, tilboðum sem þeir segja að geti lækkað í henni rostann. Þeir spyrja hvort hún sé á blæðingum og hvort hún sé öfgafemínisti. Þegar ungir strákar eiga í hlut segist Sólborg gjarnan bregðast við með því að bjóðast til að hafa samband við foreldra þeirra. „Þá bakka þeir gjarnan og biðja mig afsökunar.“ Hún segir Fávitainstagrammið einnig vera vopn í þessari baráttu. „Þetta er verndarvængur.“

Hún bendir á að fæstir þeirra sem senda fólki óumbeðnar kynfæramyndir viðurkenni það fyrir fjölskyldu og samferðafólki með stolti að það sé það sem þau stunda. „Ég býðst til að afhjúpa þig vinur minn ef þú ferð ekki að girða þig í brók,“ segir hún ákveðin. „Ég mæli með að fólk rjúfi þögnina því við höfum rými til þess, við þurfum ekki að burðast með þetta í hljóði. Það er vandamál fortíðarinnar, við erum komin lengra.“

Sólborg segist þó ekki nafngreina fólk því hún vill leggja áherslu á að gerendur hafi rými til að verða betri. „Ég trúi því að gerendur geti lært af mistökum sínum.“

Hlaðvarp í vændum

Það er mikið um að vera hjá Sólborgu en ásamt því að vera að setja í loftið hlaðvarp um þessi hugðarefni sín þá heldur hún áfram með fyrirlestra sína og fræðslu. Hún segir viðbrögðin frá unga fólkinu hingað til afar góð. „Krakkarnir vita oft miklu meira en fullorðna fólkið en þau eru meðvituð um það sem er í gangi úti og finnst ekki vandræðalegt að ræða kynlíf og mörk eða markaleysi.“

Rætt var við Sólborgu í Mannlega þættinum en innslagið má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan