Ákveði þjóðfélög ekki hvernig skuli forgangsraða í heilbrigðiskerfinu er hætt við því að það svari eftirspurn ríkra frekar en þörf veikra og efnalítilla. Þetta segir sænskur prófessor í læknasiðfræði. Brýnt sé að ákveða á hvaða gildum forgangsröðun eigi að byggja.
Hver þjóð verður að gera upp við sig hvaða sjónarmið og gildi eigi að ráða för þegar það þarf að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni. Þetta segir sænskur prófessor í læknasiðfræði sem talaði á heilbrigðisþingi fyrir skemmstu.
Sænski prófessorinn bendir á það þurfi að ákveða þurfi hvort þeir veikustu eigi að hafa forgang og hvort gera eigi dýrar aðgerðir sem lengi líf sjúklings um nokkra mánuði á kostnað aðstoðar við stærri og minna veikan hóp.
Þarf að greina milli þarfar og eftirspurnar
Samfélagið þurfi að ákveða hvort gildi eins og mannúð og jöfnuður eigi að ráða forgangsröðun heilbrigðisþjónustu. En hvers vegna er þetta mikilvægt?
„Ein áhættan er að heilbrigðiskerfið fari smám saman frá því að grundvallast á þörfum sjúklinga yfir í að svara eftirspurn. Þá er heilbrigðiskerfið orðið að markaðstorgi og sjúklingarnir viðskiptavinir. Kerfið verður þá hliðhollt þeim ríku og þeim sem biðja um læknisþjónustu þótt þeir þurfi ekki á henni að halda. Svo að það er mikilvægt að greina á milli þarfar og eftirspurnar,“ segir Göran Hermerén, prófessor emeritus við háskólann í Lundi.
Göran segir að fólk geti óskað eftir læknisaðgerð vegna offitu og smæðar en það sé ekki þar með sagt að heilbrigðiskerfi, sem rekið er fyrir skattfé, eigi að þjóna þessu fólki.
Þá séu sumir, vegna veikinda, fátæktar eða af öðrum ástæðum sem biðji ekki um lyf, bólusetningar eða þá læknisaðstoð sem þeir þurfa,“ segir Göra.
Því þurfi að ákveða hvað hafi forgang.
„Þetta snýst um það hvers konar samfélag við viljum arfleiða börnin okkar að og barnabörn,“ segir Göran.