Fyrir fjörutíu árum rændu þjófar fimm afar verðmætum listaverkum úr safni í Austur-Þýskalandi. Nú er loks búið að endurheimta verkin, þökk sé borgarstjóranum á staðnum. Margt er þó enn á huldu um þennan stærsta og dularfyllsta listaverkaþjófnað í sögu Austur-Þýskalands.
Borgarstjórinn í Gotha, Knut Kreuch, var þrettán ára þegar sagan fór eins og eldur í sinu um borgina á köldum föstudagsmorgni í desember 1979. Þjófar höfðu brotist inn í listasafnið í Gotha og haft á brott með sér fimm ómetanleg listaverk. Þetta var áfall fyrir Knut Kreuch. Hann hélt að það væru engir þjófar eða morðingjar í Austur-Þýskalandi. Hann hélt að vondu karlarnir væru allir í vestrinu.
Glæparannsóknin enn í fullum gangi
Knut Kreuch er búinn að vera borgarstjóri í Gotha frá 2006 og á dögunum rættist fjörutíu ára gamall draumur. Hann hefur loksins fengið stolnu myndirnar í hendurnar. Þrotlaus vinna hans í mörg ár skilaði sér loksins. Síðar í vikunni gerði rannsóknarlögreglan húsleit víða í Þýsklandi á skrifstofum og heimilum þriggja vitna og tveggja manna sem grunaðir eru um fjárkúgun og að hafa haft stolna muni í fórum sínum. Þýska blaðið Spiegel segir að leitað hafi verið hjá þýskum lögfræðingi í sunnanverðu landinu en sá hefur sérhæft sig í að koma vafasömum listaverkum aftur í umferð. Listaverkin eru komin til skila en glæparannsóknin er enn í fullum gangi.
Með listaverkaránið á heilanum
Borgarstjórinn hefur verið með þetta listaverkarán á heilanum í fjóra áratugi og hefur sem borgarstjóri lagt mikla vinnu í að leita verkanna. Hann stóð fyrir mikilli fjölmiðlaherferð fyrir áratug til að reyna að komast til botns í málinu en allt kom fyrir ekki. Dularfulli lögfræðingurinn hringdi svo í borgarstjórann Kreuch í júní árið 2018. Hann sýndi honum síðar myndir af stolnu verkunum fimm og sagði að umbjóðendur hans vildu koma verkunum til skila, reyndar gegn ríflegri þóknun. Við tóku langar og strangar samningaviðræður. Það er ekki alveg einfalt að koma stolnum verkum aftur í umferð.
Reifarakennd atburðarás
Innbrotið sjálft og rannsóknin sem fylgdi í kjölfarið eru reifarakennd. Þjófarnir klifu kastalaveggina á safninu með flóknum klifurbúnaði og skáru gat á rúðu í tíu metra hæð frá jörðu. Innan dyra gengu þeir hreint til verks, það var verið að sýna verk hollensku meistaranna. Þar tóku þeir fjögur verk eftir Frans Hals, Anthonis van Dyck, Jan Brueghel eldri and Jan Lievens. Í þýska salnum tóku þeir eitt verk eftir Hans Holbein eldri. Þeir komu verkunum niður sömu leið og þeir komu inn, niður tíu metra kastalavegg. Verkin fimm voru metin á fjóra og hálfa milljón vesturþýskra marka, fyrir fjörutíu árum.
Ótrúlega umfangsmikil rannsókn Stasi
Þetta var verk fyrir öryggislögregluna Stasi og allt var sett á fullt. Sérstök deild var stofnuð innan Stasi til að leysa málið og í henni voru 95 lögreglumenn. Öllum steinum var velt við. Eitt þúsund tuttugu og sjö sem bjuggu eða unnu nálægt safninu voru rannsakaðir sérstaklega og mánuðum og árum saman var fylgst náið með tvö hundruð fimmtíu og tveimur sem tengdust safninu sérstaklega. Mörg hundruð þjófar og ræningjar voru rannsakaðir og yfirheyrðir og 86 þekktir þjófar í nágrenninu voru yfirheyrðir gaumgæfilega. Gerð var húsleit hjá áttatíu og sex þeirra. Eitt þúsund fjörutíu og fimm bifreiðar voru rannsakaðar í þaula. Allar vísbendingar voru rannsakaðar í þaula en án árangurs og rannsókninni var að lokum hætt um miðjan níunda áratuginn.
Flækjustigið var gríðarlegt
Knut Kreuch sætti sig aldrei við þær málalyktir og sem borgarstjóri í næstum fjórtán ár hefur hann lagt mikinn þunga í málið. Hreyfing komst loks á málið í júní í fyrra þegar lögfræðingurinn hafði samband. Átján mánaða samningaviðræður lögmannsins og borgarstjóran eru efni í pistlaröð. Flækjustigið var gríðarlegt. Umbjóðendur lögmannsins vildu ekkert gefa upp um hvernig verkin komust í þeirra hendur eða yfir höfuð hverjir þeir væru. Borgarstjórinn gat ekki ráðfært sig við neinn til að fæla engan frá. Seljendur vildu fullt af peningum en borgarstjórinn gat ekkert borgað. Samtök sem styrkja endurheimt glataðra verka voru í flókinni stöðu, í raun var þetta allt saman ólöglegt að svo mörgu leyti að eiginlega var þetta algjörlega vonlaust. En til að gera mjög langa og flókna sögu stutta tókust samningar á endanum. Borgarstjórinn samþykkti að borga fimm komma tuttugu og fimm milljónir evra eða sjö hundruð og tuttugu milljónir króna, án þess að vita almennilega hvernig það yrði gert.
Ekki bjartsýnn á að fá botn í málið
Lögreglan var komin í málið og fylgdist grannt með þegar verkin voru afhent. Maðurinn sem kom með þau var krafinn sagna og sá gaf upp reifarakennda sögu. Þar áttu að koma við sögu stríðsfangar í Rússlandi, flóttamenn og góðmennska sem endaði á því að verkin enduðu í höndum fjölskyldu mannsins sem erfði þau ásamt systkinum sínum við andlát föðurins. Ekkert í þessari frásögn stóðst neina skoðun. Ekki sér fyrir endann á rannsókn málsins og borgarstjórinn Knut Kreuch er reyndar ekki bjartsýnn á að fá nokkurn tímann botn í hvað það var sem gerðist þessa örlagaríku desembernótt fyrir fjörutíu árum. En verkin eru loks komin aftur til síns heima.