Dularfull pest herjar nú á hunda í Noregi og í síðustu viku ákvað Matvælastofnun að setja bann við innflutningi á hundum frá Noregi þar til meira er vitað um veikindin. Tugir hunda í fjórtán fylkjum víðsvegar um Noreg hafa drepist þótt flestir hundanna sem veikst hafa séu á svæði í kringum höfuðborgina.
Þóra Jóhanna Jónasdóttir, dýralæknir gæludýra og dýravelferðar hjá Matvælastofnun, segir kollega sína í Noregi keppast við að leita orsakanna.
Þegar er búið að kryfja tíu hunda og í þörmum þeirra flestra fundust sýklar sem valda meltingarsjúkdómum, en blóðugur niðurgangur og blóðug uppköst eru einkenni veikindanna.
Dýralæknar eiga enn ekki skýringar á þessum veikindum en hafa útilokað að eitrað hafi verið fyrir hundunum með rottueitri eða þeir sýkst af salmónellu sem veldur sömu einkennum og ekki er þetta þörungaeitrun, miltisbrandur eða hérapest, segir á vef norska útvarpsins.
Þóra Jóhanna segir að óeðlilega hátt hlutfall hunda hafi sýnt fyrrgreind einkenni og þróunin sé líka mjög bráð. Hundar hafi jafnvel drepist á innan við sólarhring þrátt fyrir mikla meðhöndlun og það sé skiljanlegt að slíkt veki gæludýraeigendum ugg.