Rokksveitin Black Midi er ein sú heitasta í Bretlandi um þessar mundir en myndband af þeim á síðustu Iceland Airwaves hátíð vakti mikla athygli. Nafn sveitarinnar má rekja til sérviskulegrar japanskrar tónlistarstefnu sem komst á stutt flug fyrir áratug.
Friðrik Margrétar Guðmundsson skrifar:
Í upphafi árs 2019 birtist myndband á Youtube frá útvarpsstöðinni KEXP af því sem var þá nánast óþekkt hljómsveit að spila á KEX hostel í Reykjavík. Hljómsveitin heitir Black Midi og eftir að myndbandið komst í dreifingu fór það fljótt að berast á milli tónlistarunnenda.
Það væru engar ýkjur að segja að Black Midi sé dularfull hljómsveit. Viðvera þeirra á netinu hefur verið nánast engin í samanburði við aðrar hljómsveitir okkar tíma. Þeir segja sjálfir að þetta sé einfaldlega vegna þess að það hafi verið óþarfi að auglýsa sig gegnum samfélagsmiðla, hlutirnir gerðust hratt stuttu eftir að þeir byrjuðu að leika á tónleikum, orðið fór að berast og fljótt voru tónleikarnir þeirra þétt setnir. Þegar fólk spurði þá af hverju þeir höfðu ekki gefið út neina tónlist var svarið einfalt, þeir höfðu ekki enn þá náð að taka hana upp.
Á þessu var þó breyting nú í sumar þegar fyrsta platan þeirra Of Schlagenheim kom út og hlaut einróma lof gagnrýnenda og aðdáenda rokktónlistar. Þó svo að hljómsveitin Black Midi sé ný af nálinni er nafnið hennar nokkuð eldra, eða um 10 ára gamalt. Það er kannski kaldhæðnislegt að helstu einkenni hljómsveitarinnar, hráa en samt sem áður þaulæfða spilamennskan á gítar, trommur og bassa (hljóðfæri sem eru orðinn frekar gamaldags á þessari stafrænu öld), lítil viðvera á internetinu og óformföstu lögin frá þessu fyrst og fremst tónleikabandi eru í rauninni andstæðan við fyrirbærið sem hljómsveitin er nefnd eftir. En til að gera hinu upprunalega svarta MIDI skil þurfum við að færa okkur til austurs, nánar tiltekið til Japans árið 2009.
MIDI stendur fyrir Musical Instrument Digital Interface eða stafrænt viðmót fyrir hljóðfæri. Viðmótið túlkar upplýsingar um spilamennsku til dæmis tónhæð og styrk og færir þær yfir á rafrænt form. Tæknin var upprunalega þróuð í upphafi níunda áratugarins af frumkvæði margra af stærstu hljóðfærafyrirtækjum Bandaríkjanna og Japan og hugsað sem eins konar tungumál til að mismunandi rafhljóðfæri og stafræn hljóðfæri gætu skilið hvert annað. Viðmótið er ekki notað til að færa sjálft hljóðið á milli tækja, heldur bara upplýsingar um hvað eigi eða hafi verið spilað og hvenær. Þannig gæti ég tengt MIDI hljómborðið mitt við tölvu, spilað lag og látið svo tölvuna leika lagið á annað hljóðfæri.
Orgelið endurflytur sjálfkrafa
Það eru ýmsir kostir sem fylgja þessu. Það er auðvelt að breyta upplýsingunum, til dæmis laga feilnótur eða nótur sem voru ekki í réttum takti eða ekki nógu veikar eða sterkar. Svo er hægt að fara hina leiðina og láta tölvuna senda MIDI upplýsingar í hljóðfærið og spila. Á orgelinu í Hallgrímskirkju er MIDI viðmót þannig það er hægt að taka upplýsingar frá tónleikum organista og láta svo orgelið endurflytja nákvæmlega sömu tónleika af sjálfsdáðum einhvern tímann seinna. Þannig fyrir þá sem hafa áhuga á Disney-teiknimyndum frá tíunda áratugnum þá, já. Hallgrímskirkjuorgelið er alveg eins og illmennið Orgkell úr Fríðu og dýrinu - töfrajólum Fríðu.
MIDI tæknin er einnig gagnleg í sjálfu tónsmíðaferlinu en með henni geta tónlistarmenn teiknað nótur beint inn í forrit sem notar MIDI og svo látið tölvurnar um að spila þær út. MIDI upplýsingar eru í rauninni nákvæmlega eins og nótur á blaði, gefa okkur ekki hljóðið sjálft en allar upplýsingar um flutninginn. Þó þetta geti einfaldað ferlið sem nótnaskrift er gildir auðvitað það sama um það að skrifa nótur á tölvuforrit og að skrifa þær á blað, ef þú ert að skrifa tónlist fyrir fólk þarf fólk auðvitað að geta spilað hana.
Gervipíanó
En hvað ef við sleppum bara fólkinu? Fyrst að tölvurnar geta nú þegar sent upplýsingarnar beint inn í hljóðfæri, þarf þá nokkuð hljóðfæraleikara? Þá komum við að black MIDI. Black MIDI eða Kuro Gakufu eins og það heitir á japönsku er listastefna sem nýtir sér MIDI tæknina í nótnaskriftarforritum til að gera tónlist sem væri ómögulegt að framkvæma af mannfólki en er hægt að hlusta á í gegnum stafræn hljóðfæri. Reyndar bara eitt hljóðfæri því alvöru black MIDI er eftir því sem ég kemst næst aðeins spilað á innbyggt píanó þess forrits sem notast er við, helst með versta og kjánalegasta gervipíanóhljóðinu.
Gjörningurinn er ekki leit af einhverjum tónlistarlegum sannleika heldur oftar en ekki einhvers konar grín þar sem þekkt lög eru skrifuð upp í ómögulegum útgáfum. Black MIDI listamenn sem kalla sig yfirleitt Blackers láta tónlistina ekki nægja heldur fylgja öllum black MIDI lögum myndbönd, svokölluð score-followers þar sem við sjáum tölvuna lesa nóturnar og spila þær út á gervipíanó í rauntíma. Þar sem það fylgir gjörningum að tónlistin sé óspilanleg af mennskum hljóðfæraleikurum er oft mikið af nótum og þétt setið á nótnastrengjunum, svo mjög að nótnablaðið, ef svo mætti kalla, er á sumum stöðum bara ein svört klessa og þaðan dregur stefnan nafnið sitt, black MIDI.
Fyrsta Black MIDI myndbandið kom út í april 2009 á japönsku síðunni Nico Nico Doga, þar gerði notandinn kakakakaito1998 útgáfu af laginu UN owen was Her úr tölvuleiknum Touhou Project 6. Touhou Project er bardagaleikur sem fellur undir flokk tölvuleikja sem hafa fengið nafnið Bullet Hell eða skothelvíti sem er undirtegund af skothríðarleikjum sem hefur verið vinsæl tegund tölvuleikja allt frá upphafi. Tölvuleikir af þessu tagi snúast um að skjóta eða vera skotin og oft eru heil ógrynnin af skotkúlum á skjá leikanda í einu, svo mikið að það væri yfirþyrmandi fyrir illa reyndan spilara og þarfnast stöðugs viðbragðs spilara. Seinni tíma black MIDI stórstjarnarn sem gengur aðeins undir notendanafninu The Trusted Computer hefur sagt að það sé skýr tenging milli stórhríðartölvuleikjanna og tónlistarstefnunnar, ekki bara þegar litið er á lagaval heldur á fagurfræði. Yfirþyrmandi magn nótna á nótnablaðinu endurspeglast í yfirþyrmandi magni skota í tölvuleikjunum. Eftir að fyrsta myndbandið var komið á netið var ekki hægt að stoppa. Fleiri notendur fóru að gera sínar útgáfur af fleiri tölvuleikjalögum og fljótt fóru markmið stefnunnar að sýna sig. Því fleiri nótur því betra.
Það var ekki fyrr en 2011 sem kakakakaito1998 setti myndbandið umtalaða á Youtube og það var ekki lengi að laða að aðdáendur frá hinum vestræna heimi. Þessu fylgdu fleiri myndbönd af endurunnum lögum en nú var stefnan ekki einungis bundin við lög fyrir tölvuleiki heldur fóru notendur að „sverta“ eins og það er kallað, vinsæl lög úr öllum áttum, bæði úr poppsögunni og kvikmyndum.
Kómísk nótnaofgnótt
Black MIDI lög fylgja yfirleitt mjög frekar fyrirsjáanlegri formúlu. Fyrst er lagið spilað á frekar einfaldan máta og myndböndin líkjast þá stundum frekar kennslumyndböndum í píanóleik en einhverju öðru. Reyndar má sjá á athugasemdum að sumir hafa bitið á agnið í leit sinni af popplögum til að spila á hljómborðið heima en maður getur ímyndað sér að þeim fallist hendur þegar myndbandið heldur áfram því fljótt fer að bera á því að útgáfan er ekki ætluð mannfólki. Þeir sem sverta lögin hafa þó alltaf í huga að lagið haldi alltaf sínum einkennum, melódíu, ryþma og hljómum, að maður gleymi því aldrei að maður er að hlusta á lag en ekki bara eitthvað sem er ómögulegt bara af því bara. Eftir því sem líður á verða myndböndin oft svo kómískt yfirtroðin af nótum að forritin eru við það að hætta að geta spilað út svo margar nótur á stuttum tíma. Það þykir almennt flottur lokapunktur ef útspilunin laggar aðeins í endann. Þó ekki svo mikið að forritið slökkvi á sér af yfirkeyrslu, með þeim afleiðingum að lagið hætti áður en það er búið, heldur bara að maður sjái að það þurfti að hafa sig allt við til að klára verkið.
Black MIDI hefur nánast horfið jafn skjótt og það hófst. Eftir að notendur fóru að keppast um hversu margar nótur komust fyrir í einu lagi varð sprengja í deilingum en fljótlega eftir að milljón nótna markinu var náð dvínuðu vinsældir stefnunnar töluvert.
Hugmyndin um ómögulega píanónótnaskrift er alls ekki ný. Sjálfspilandi píanó virka þannig að svokölluðu píanórúlla er sett í þau með upplýsingum um hvaða nótur á að spila hvenær, ekki ólíkt því hvernig MIDI vikrar. Eins og MIDI var það upprunalega notað til sparnaðar og þæginda frekar en til skapandi ferlis. En þegar Conlon Narcarrow, bandarískt-mexíkóskt tónskáld, fór á fimmta áratugnum að verða pirraður á getuleysi mannlegra píanóleikara til að leika flókna ryþma byrjaði hann að nota sjálfspilandi píanó til að koma fram tónsmíðalegri hugsjón sinni. Samansagn verka hans fyrir sjálfspilaandi píanó kláraði hann ekki fyrr en 1992, næstum 10 árum eftir að MIDI tæknin var búin til.
Samskynjunarmyndlist
Þó svo að stúdíur Conlon Nancarrow séu að mörgu leyti svipaðar og black MIDI er auðvitað mikill munur á stefnunum. Eins og fyrrnefndur notandi TheTrustedComputer kemst að orði er black MIDI ekki hugsað sem tónlistarstefna til að byrja með heldur endurvinnsla á fyrirfram gerðu efni, svokölluð remix-stefna. Þó svo að einhverjir hafi samið sín eigin lög í stefnunni er normið að nota lög sem hlustendur kannast við. Einnig er gífurlegur munur á miðlinum. Verk Nancarrow eru einungis tónverk, þau eru hugsuð til hlustunar, á meðan að black MIDI er bæði til fyrir augu og eyru. Reyndar er vinsælasta forritið til að gera black MIDI tónlist í forritið syntesia eða samskynjun þar sem nóturnar detta ofan frá á hljómborðið í hvaða lit sem þú vilt. Þannig hafa notendur breytt miðlinum þannig að hann mætti túlka sem eins konar myndlist og á sama tíma fjarlægst svarta litinn sem stefnan dregur nafn sitt af.
Black MIDI sem listræn stefna og miðill er ekki líklegt til að eiga sér endurreisn á næstu árum. Þó að enn þá sé eitthvað af notendum að búa til ný black MIDI myndbönd er keppnin um hversu margar nótur komast í eitt lag orðin frekar banal, svo maður sletti. Forritin hætt að geta spilað þetta og þar með er gamanið farið að kárna. Ef litið er á leitarmynstrið á leitarvél Google má sjá að vinsældir leitarorðanna black MIDI hafa hins vegar margfaldast í sumar og ástæðan fyrir því er að hljómsveitin Black Midi gaf út sína fyrstu plötu í sumar sem hefur fengið gífurlega góðar viðtökur og mikla umfjöllun. En þrátt fyrir að hljómsveitin eigni sér að öllum líkindum hugtakið black MIDI með vinsældum sínum verður nafnið alltaf áminning um þessa skrýtnu stafrænu tónlistarstefnu.