Haustið 1976 fengu vísindamenn á Vesturlöndum veður af mannskæðri farsótt sem hafði á nokkrum vikum orðið tugum eða hundruðum manna að bana í smáþorpum í afskekktu skóglendi í Saír, Mið-Afríkulandinu sem nú heitir Austur-Kongó.

Farsóttin líktist varla neinu sem sérfræðingar, læknar og líffræðingar, höfðu komist í kynni við áður. Flestra þeirra sem smituðust beið sársaukafullur dauðdagi á örfáum dögum eða vikum, vegna mikilla innvortis og útvortis blæðinga.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um það í ljós kom að voru fyrstu tilfelli ebólu sem vísindamenn rannsökuðu, í Saír haustið 1976, en alvarlegur ebólufaraldur geisar nú í Austur-Kongó á nýjan leik. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. 

Sjúkdómsins varð fyrst vart í smáþorpi norðarlega í Saír, Yambuku. Mikilsmetinn skólastjóri í þorpinu fékk hita og höfuðverk sem skjótt þróaðist út í mikil uppköst, niðurgang og blæðingar. 

Eftir að skólastjórinn lést fengu ættingjar hans og margir sem verið höfðu í jarðarför hans svipuð einkenni. 

Svo vildi til að í Yambuku var eini spítalinn þarna í sveitinni, og þangað kom fólk úr ótal smáþorpum og bæjum til að sækja sér meðhöndlun. Spítalann ráku nokkrar belgískar nunnur sem margar höfðu verið í Saír í áratugi. 

Ekki leið á löngu þar til fársjúkt fólk streymdi á spítalann til nunnanna, sem réðu engan veginn við faraldurinn og gátu lítið að gert. 

Þegar nunnurnar sjálfar fóru að veikjast urðu þær að kalla á aðstoð að utan. Þannig fékk umheimurinn að lokum veður af hörmungunum í Yambuku og nágrenni.

Rannsóknir leiddu í ljós að það sem herjaði á sveitina var eitthvað áður óþekkt læknavísindunum. Í október kom þangað alþjóðlegt teymi sérfræðinga til að reyna að komast í botns í því hvað var eiginlega á seyði og hvernig mætti stemma stigu við faraldrinum og lækna þá sjúku. 

Það var þó allt hægara sagt en gert í afskekktum skógi í Saír árið 1976.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV