„Ég er núna haldinn svokallaðri ostalgíu eða Sovét-þrá,“ segir Adolf Smári Unnarsson rithöfundur eftir að hafa horft á þættina um hörmungarnar í Tsjernobyl kjarnorkuverinu 1986. Þættirnir hafa vakið mikla athygli og hlotið einróma lof gagnrýnenda en þrátt fyrir að vera tormeltara en flest afþreygingarefni hafa þeir náð afar útbreiddum vinsældum.
Chernobyl þættirnir frá sjónvarpsstöðinni HBO fjalla um kjarnorkuslysið í Sovétríkjunum þegar sprenging varð í kjarnakljúfri í kjarnorkuveri í Úkraínu 26. apríl árið 1986. Leikstjóri þáttanna er hinn sænski Johan Renck en höfundur Craig Mazin sem hingað til hefur mest fengist við grínmyndir en hann skrifaði seinni Hangover myndirnar og gamanmyndina Identity Thief. Léttleikinn er síst í fyrirrúmi í þessari nýju seríu enda er efniviðurinn vægast sagt hræðilegur. Gestir Lestarklefans þau Björn Steinar Blumenstein hönnuður, Adolf Smári Unnarsson rithöfundur og Sunneva Ása Weisshappel listamaður ræddu þættina við Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur. Þau voru öll hrifin af þáttunum og þótti sérstaklega samspil leikara, hljóðheims og sviðsmyndar afar áhrifatíkt.
Bókin sem þættirnir byggja á er alltaf í útláni
„Ég horfði á þetta og varð alveg dolfallinn. Ég hef núna horft á alla þættina tvisvar eða þrisvar og hlustað á hlaðvarp þar sem gerð þáttanna eru gerð skil,“ segir Adolf sem hefur upp á síðkastið grúskað mikið í efni sem tengist þáttunum til að kafa ofan í atburðina. Hann segist mikill aðdáandi þess sem er á allra vörum og að hann leggi sig venjulega fram við að vera gjaldgengur í umræðunum. „Þættirnir eru byggðar á bók eftir Svetlönu Aelxievich sem hlaut nóbelsverðlaun 2015 og ég er búinn að vera að reyna að taka þessa bók síðan ég sá þættina en hún er alltaf í útláni á Borgarbókasafninu.“
Adolf segir þættina einnig hafa vakið hjá sér áður ókunna tilfinningu. „Ég er nefnilega haldinn ostalgíu eða Sovétþrá eftir að horfa á þetta. Mig deymir um að búa í Sovétríkjunum í gamla daga.“
Persónulegir og fræðandi
Sunneva horfði á alla fimm þættina á aðeins einni nóttu. „Þeir voru mjög áhrifamiklir,“ segir hún. Hún segir að það hafi slegið sig einna mest að fylgjast með manninum missa tökin á eigin sköpunarverki með þeim afleiðingum að sköpunarverkið snerist gegn honum. „Þættirnir náðu líka vel að fræða mann því þó þetta sé skáldskapur þá er þetta byggt á sönnum heimildum. Mér fannst þeir ná að blanda þessu tvennu ofboðslega vel saman, ég fræddist á sama tíma og ég fékk að kynnast persónum og samskiptum þeirra á náinn hátt.“
Þættirnir hafa ekki síst verið mærðir fyrir fagurfræðina í hryllingnum, hvernig mengunin og hamfarirnar eru sett fram á myndrænan og listrænan hátt. „Hljóðheimurinn fannst mér svakalega flottur. Það var sumt sjónrænt í þessu sem var gjörsamlega bilað,“ segir Björn Steinar. Hann segir sláandi að sjá hversu illa leiknir sjúklingar urðu á dánarbeðinu eftir að hafa komist í tæri við geislavirknina. „Ég hefði ekki einu sinni getað ímyndað mér þetta og vona að útlit þeirra undir lokinn sé ekki byggt á nákvæmum raunveruleika.“
Feðraveldi án þess að manni bjóði við því
Björn Steinar hjó þó eftir því hvernig, þrátt fyrir þöggunina og leynimakkið, hafi verið dregin mannleg mynd af samfélagi Sovétmanna. „Það er svo mikill frændskapur,“ segir hann. „Auðvitað ríkir svakaleg blekking sem er dregin fram í þáttunum og einnig feðraveldi en án þess að mér bjóði við því. Menn voru samkvæmt þáttunum tilbúnir til að fórna sér fyrir systur og bræður sem ég sé ekki í Vestrænu samfélagi,“ segir hann.
„Þó þetta sé skáldað og dramatíserað þá virðist sem fólk hafi verið tilbúið til að ganga í opinn dauðann til að hjálpa fjöldanum. Það hvernig þeir sem voru á dánarbeðinum vildu samt segja sannleikann fannst mér ótrúlega magnað. Meira að segja hvernig leyniþjónustan virkaði. Þau komu manneskjulega fram við fanga og þá sem þau voru með í haldi. Þeim var gerð staða sín skýr strax,“ segir hann.
Ógeðslegur fasismi
Hér tekur Sunneva Ása sem hristir hausinn orðið .„Ég upplifði svo ógeðslega mikinn fasisma, ég var bara oj,“ segir hún og skellihlær. „Þú ert kannski tilbúinn að standa upp fyrir bræður og systur en á sama tíma tilbúinn til að fórna rosalega miklu til að halda uppi ímyndarsköpun gagnvart heiminum. Oj-ba-ra-sta fokking ógeðslegtur fasismi.“
Lestarklefinn er umræðuþáttur um menningu og listir sem sýndur er í beinni á menningarvef RÚV á hverjum föstudegi klukkan 17.03 og útvarpað á Rás 1. Hægt er að horfa og hlýða á umræður um Chernobyl þættina í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.