Vatn er eintöluorð. Fólk fær sér vatn að drekka, og þá kannski þrjú vatnsglös en alls ekki þrjú vötn. Hins vegar geta verið nokkur vötn á sömu heiði, í merkingunni stöðuvatn.
Að sama skapi er hægt að hafa í lófa sér þrjú sandkorn en ekki þrjá sanda, en hins vegar hægt að tala um sanda í fleirtölu í merkingunni sandsvæði eða sandauðn.
Verslun í eintölu þýðir viðskipti, kaup og sala, sem sagt það að versla, eða ein verslun í merkingunni búð. Í fleirtölu, verslanir, þýðir orðið einungis búðir en á ekki við um viðskipti.
Málfarsmínútan er flutt í Samfélaginu á Rás 1 þrisvar í viku.