Hælið, setur um sögu berklanna var nýverið opnað á Kristnesi í Eyjafirði. Þar er fjöldinn allur af munum, ljósmyndum og frásögnum og hægt að kynna sér sögu fólks sem dvaldi á Kristneshæli á meðan það barðist við berkla. Þar er meðal annars hægt að skoða rifbein úr manni sem var höggvinn í lækningaskyni.
María Pálsdóttir, stofnandi Hælisins segir hugmyndina hafa komið til sín árið 2015. Þá var hún á gangi um æskuslóðir sínar á Kristnesi og þótti leiðinlegt hvernig staðurinn var að drabbast niður. Hún velti fyrir sér hvers vegna enginn gerði neitt í þessu og hugsaði svo, „af hverju geri ég ekki eitthvað í þessu?“ Kristnesspítali var upprunalega berklahæli sem var tekið í notkun árið 1927. Nú er þar rekin endurhæfingardeild og öldrunarlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri og nokkur af húsunum ekki í notkun. Því lá beinast við að breyta gömlum vistarverum starfsstúlkna Kristneshælis í berklasetur, segir María.
Boltinn fór strax að rúlla og nú fjórum árum síðar hefur hún opnað Hælið. Hún segir mikla vinnu að baki, mikið af hindrunum og hæðum en einnig mikill meðbyr. Hún segir ótrúlegasta fólk hafa komið og aðstoðað, bæði með gjöfum, fjárframlögum og sjálfboðavinnu og er full þakklætis fyrir alla hjálp sem hún hafi fengið. María segir marga hafa haft efasemdir um setrið. „Ég fékk alls konar viðvaranir um að þetta væri nú eitthvað sem ég ætti ekki að fjalla um, þetta væri ekki sexý. En þá spurði ég á móti, hvað er sexý við síld?“ Hún segir framsetninguna skipta mestu máli og er mjög ánægð með hvernig til tókst.
Fólk fer grátandi út
Þá séu viðbrögð fólks við sýningunni ótrúleg, það fari jafnvel grátandi út, fullt þakklætis. Hún segir marga sem dvöldu á Kristneshæli á sínum tíma hafa komið og sýningin snerti fólk misjafnlega. Í þá daga hafi ekki verið nein áfallahjálp og greinilegt að ekki allir hafi unnið úr sínum málum og jafnvel ekki talað um veikindin fyrr en nú. Í raun hafi hálfpartinn verið lokað á alla umræðu um sjúkdóminn því honum fylgdi mikil skömm og þeir sem hafi læknast hafi samt sem áður upplifað höfnun þar sem allir hafi verið hræddir við smit. Vegna lítillar umræðu sé almenn vitneskja um sjúkdóminn og áhrif hans á samfélagið lítil og vill María opna augu fólks fyrir raunum sjúklinganna.
„Elskar í honum hvert bein“
Hún fær sendar sögur og muni úr öllum áttum og segir greinilegt hversu mikilvægt málefnið sé fólki. Með því að hjálpa til vilji það heiðra minningu ástvina þeirra sem létust úr berklum. Sögur þeirra sem þarna dvöldu séu stórar gjafir og mikilvægar. Á sýningunni má líka finna fimm rifbein, eða beinin hans Bjössa Sör eins og María kallar þau. Þau afhenti hann henni í janúar síðastliðnum. Bjössi fékk berkla og árið 1953 var hann höggvinn í lækningaskyni. Þeirri aðferð var beitt í erfiðustu tilfellunum, en þá voru rifbein fjarlægð til þess að fella saman lunga. Í flestum tilfellum hafi þessum beinum verið hent en Hilla eiginkona hans hafi elskað í honum hvert bein og geymt rifbeinin öll þessi ár, í kassa utan af sokkabuxum.
Á sýningunni er einnig stórt myndbandsverk en þar safnar María saman ljósmyndum af öllum þeim sem létust úr berklum en um 5900 manns létust úr sjúkdómnum á Íslandi á árunum 1911-1970. Ljósmyndir af fólkinu eru hins vegar nafnlausar og úr fókus eins og er því María þarf samþykki ættingja til að birta þessar upplýsingar. Hún segir að það muni taka tíma en listaverkið verði uppfært smám saman eftir því sem samþykki berist.