Ungur maður sem starfar á vernduðum vinnustað segir tækifæri fyrir fatlaða á vinnumarkaði of fá og auka þurfi stuðning svo fatlað fólk geti unnið á almennum vinnumarkaði. Formaður Öryrkjabandalagsins segir að helsta verkefnið sé að vinna á fordómum.
Á málþingi í dag á vegum Hlutverks, samtaka um vinnu og verkþjálfun, og málefnahópur ÖBÍ um atvinnumál, um atvinnumál fólks með skerta starfsgetu var rætt um skort á atvinnutækifærum fyrir fatlað fólk.
Atli Már Haraldsson er 25 ára gamall og hefur starfað hjá Ási styrktarfélagi í fimm ár, og langar að breyta til, en segir tækifærin takmörkuð. Hann segir draumavinnustaðinn vera á almennum vinnumarkaði.
„Við þurfum að auka stuðning víða, ekki bara hjá mér sem fötluðum manni heldur hjá öllum sem vilja fá tækifæri til að starfa," segir Atli.
Hann segir að auka þurfi þekkingu og gefa fötluðu fólki með mismunandi skerðingar fleiri tækifæri. Þá þurfi meiri fræðslu fyrir vinnustaði.
„Hvernig sé best að huga að fólki með blandaðar skerðingar og fræða fólk um að fatlað fólk getur unnið," segir hann, honum líði hræðilega með að hann geti ekki unnið á
Formaður Öryrkjabandalagsins, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, segir vanta störf við hæfi fyrir alla í samfélaginu og að vinnustaðir fái fræðslu og stuðning til að mæta fólki með skerta vinnugetu.
„Ég held að ein af stærstu áskorununum sé að vinna á fordómum gagnvart fötluðu fólki og vinna á hræðslu, það gerum við bara með því að eiga virkt samtal og með fræðslu," segir Þuríður.