„Hann er ekki heima, hann kemur eftir svona átta vikur. Ég má ekki taka hann svona ungan, hann þarf að vera hjá mömmu sinni,“ segir Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú sem ákvað í fyrrahaust að klóna hundinn Sám sem setti mikinn svip á Bessastaði í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar.

Sýni voru tekin úr Sámi og send til fyrirtækis í Texas sem ræktaði úr þeim frumur sem var svo skipt út fyrir kjarnafrjóvgaðar eggfrumur og komið fyrir í legi tíkur. „Ég er bara mjög spennt,“ sagði Dorrit þegar Síðdegisútvarpið sló á þráðinn til hennar. Dorrit segir ferlið hafa gengið mjög vel í þetta skiptið en þetta hafi verið í þriðja sinn sem einræktunin var reynd, en hún hafi mistekist í fyrstu tvö skiptin. „Það gengur mjög vel, hann borðar mikið og er alveg eins og Sámur var. Ég veit hann er bara sólarhringsgamall en maður sér það á myndunum að hann opnar munninn alveg eins og Sámur.“

Hinn klónaði Sámur mun ekki búa á Íslandi. „Hann verður í Bandaríkjunum að ég held fram í mars. Síðan er hann sprautaður fyrir hundaæði og kemur að búa í London með mér. Þaðan getur hann ferðast nánast hvert sem er í Evrópu. En hann má ekki koma til Íslands, nema að vera mánuð í sóttkví, og ég vil ekki leggja það á hann. En hann mun vera mjög hamingjusamur í London og það mega allir koma og sjá hann, og hann mun ferðast með mér allt sem ég fer. Ef að reglunum verður breytt á Íslandi þá getur hann komið með mér þangað.“ Dorrit segist þekkja nokkra sem hafi reynslu af því að klóna gæludýrin sín. „Ein vinkona mín var mjög heppin, hún átti tvo jack russell hunda, en núna á hún sex.“

Er Ólafur jafn spenntur að hitta klónaða Sám og þú? „Ég veit ekki, þú verður að spyrja hann. Hann er á Íslandi núna, og ég held hann sé spenntur. Það er kraftaverk hvernig læknavísindunum hefur fleygt fram á þeim rúmlega 20 árum frá því kindin Dolly var klónuð af mjög góðum vini mínum.“ Hún mælir heils hugar með því að fólk einrækti gæludýrin sín, og hyggst í raun klóna Sám aftur. „Ég ætla að klóna hann aftur og rækta krabbameinsgenið úr honum. Upprunalegi Sámur dó úr mjög sjaldgæfu krabbameini. Agnes dýralæknir á Íslandi sagði mér að mögulega væri hægt að ná þessum genum úr. Kannski gæti það leitt til þess að hægt væri að ná krabbameinsgenum úr fólki.“

Dorrit segist gera sér grein fyrir að einhverjum þyki einræktun ósiðleg og hún skilji þeirra afstöðu. „Sumum finnst líka hjónaband milli tveggja karla eða tveggja kvenna sé ósiðlegt. Við höfum öll mismunandi sjónarmið, og ég virði þau öll. En það er ekkert land í heiminum þar sem klónun dýra er ólögleg.“

Andri Freyr Viðarsson ræddi við Dorrit Moussaieff í Síðdegisútvarpinu.