Besta sem foreldrar geta gert er að vera meðvitaðir um persónuupplýsingar þegar að samfélagsmiðlum kemur, segir Ásdís Auðunsdóttir, lögfræðingur og persónuverndar sérfræðingur hjá Deloitte. Hún segir myndir og myndefni ekki vera þær einu persónuupplýsingar sem foreldrar deila um börnin sín.

Rætt var við Ásdísi í Samfélaginu á Rás 1 í dag um notkun foreldra á samfélagsmiðlum. Hún segir fólk oft deila viðkvæmum persónuupplýsingum um börnin sín, til dæmis tengdum heilsufari. Miklar líkur séu á því að myndir og upplýsingar sem foreldrar setji inn af börnum sínum fylgi þeim út lífið. 

Ásdís segir foreldra vilja börnunum sínum það besta og að fólk átti sig ekki alltaf á því að um viðkvæmar upplýsingar sé að ræða. Algengt sé að foreldrar leiti ráða í hinum ýmsu hópum samfélagsmiðla, margir þessara hópa séu mjög vinsælir og fjöldi fólks í hópunum eftir því. Ásdís segir Ísland vera lítið samfélag og ekki þurfi mikið af upplýsingum til að tengja við fólk. „Við erum alltaf að skilja eftir okkur fótspor og úr þessum fótsporum getur orðið til saga. Ég held að það sé mikilvægt að leyfa börnunum að segja sína eigin sögu.“