Sérfræðingar eru sammála um að vextir muni halda áfram að lækka. Þeir hafa að undanförnu lækkað nokkuð hratt í nágrannalöndum okkar. Jótlandsbankinn býður nú upp á 10 ára húsnæðislán á föstum neikvæðum 0,5% vöxtum. Ríkisskuldabréf bera nú víða neikvæða vexti. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs segir að ef fram haldi sem horfi verði lífeyrissjóðir að taka meiri áhættu í fjárfestingum til að ná viðunandi ávöxtun.
Neikvæðir vextir
Það að bjóða upp á neikvæða vexti er erfitt að skilja fyrir leikmann og kannski ekki síst fyrir lántakendur hér á landi. Vextir af húsnæðislánum hafa vissulega lækkað. Gróft sagt má segja að þeir séu í kringum 6%. Í umfjöllun danskra fjölmiðla kemur fram að húsnæðislán með 0,5% neikvæðum föstum vöxtum til 10 ára henti líklega ekki hinum venjulega kaupanda vegna þess að afborganir séu háar. Hins vegar byrjuðu bankar í Danmörku nýlega að bjóða upp á 1% fasta vexti til 30 ára og í þessari viku hafa nokkrir danskir bankar lækkað vextina í hálft prósent. Svipað er að gerast víðar í Evrópu og Bandaríkjunum.
„Þetta er afar merkileg þróun sem við höfum verið að fylgjast með í heiminum í raun og veru undanfarnar vikur en sem síðan er angi af þróun sem hefur teygt sig yfir mun lengra tímabil.“
Pólitískur órói hefur áhrif
Segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka þegar hann er spurður að því hvað valdi því að bankar bjóði svo lága vexti, jafnvel neikvæða vexti. Hann segir að vaxtalækkanir síðustu vikur skýrist meðal annars af ákveðinni áhættufælni meðal fjárfesta og helstu hagtölur í heiminum hafi heldur verið að súrna. Fréttir um pólitískan óstöðugleika hafi áhrif.
„Hvort það er staðan í Hong Kong og Kína, deila Írana við Bandaríkin og önnur vesturveldi og auðvitað viðskiptastríðið milli Kína og Bandaríkjanna. Það er kannski það helsta.“
Borga fyrir geymslu peninga
Ástæðan fyrir því að Jyske bank, Jótlandsbankinn og fleiri bankar geta boðið upp á neikvæða vexti er einkum sú að ríkisskuldabréf sem standa á bak við lánveitinguna bera neikvæða vexti. Fjárfestar eru með öðrum orðum að greiða ríkisstjórnum fyrir að geyma peninga. Venjan hefur verið sú að pundið ávaxtast við geymslu í bönkum eða skuldabréfum. Stefán Broddi segir að þetta hafi verið að breytast á undanförnum árum. Þetta skýrist af því að sparnaður hafi aukist mikið samfara því að fjölgað hefur í eldri kynslóðum og um leið hafi hlutfall þeirra sem eru á vinnumarkaði lækkað. Einnig séu minni líkur á að hagvöxturinn haldist hár áfram. Við þetta bæðist að seðlabankar hafa keypt mikið af ríkisskuldabréfum. Kostir fyrir fjárfesta sem ekki taka mikla áhættu séu af skornum skammti.
„Og þarf að leiðandi lækkar ávöxtunarkrafan og hún getur eins og henn hafa séð lækkað niður fyrir núll."
Vextir lækki líklega hér
Stefán Broddi segir að langtímavextir hér á landi ráðist af markaðinum og líklegt að vextir haldi áfram að lækka hér.
„Ég á ekki von á öðru en að sú þróun sem hefur verið að eiga sér stað í heiminum teygi anga sína til Íslands og að hér haldi áfram sú þróun að vextir á Íslandi endurspegli það sem hefur átt sé stað í heiminum," segir Stefán Broddi.
Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðanna EFÍA og LSBÍ, bendir á að vextir allt í kringum okkur hafi verið að lækka og líka hér. Frá áramótum sé Seðlabankinn búinn að lækka stýrivexti um 75 punkta.
„Við búumst alveg við því að ef að verðbólgan heldur sig í horfinu og verðbólguvæntingar að þá gætum við jafnvel verið á vaxtalækkunarbuxum eitthvað áfram," segir Snædís.
Hún segir að þetta sé jákvætt fyrir húsnæðiskaupendur, fyrirtæki og efnahagslífið í heild. Hins vegar séu tvær hliðar á öllum peningum. Hin hliðin séu fjármagnseigendur sem séu meðal annars heimilin í landinu, sem fjármagnseigendur í gegnum lífeyrissjóðina.
„Og lífeyrissjóðirnir búa við þá stöðu í dag að í lækkandi vaxtaumhverfi verður í raun öll fjárfesting mun meira krefjandi. Það er meira krefjandi að ná góðri ávöxtun á sparnaðinn þegar vextir fara hratt lækkandi," segir Snædís.
Þurfa að taka meiri áhættu
Svokölluð ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða eða viðmið hefur verið 3,5%. Snædís bendir á að sjóðirnir kaupi ekki einungis þau skuldabréf sem nú beri lága vexti, heldur fjárfesti líka í hlutabréfum og skuldabréfum fyrirtækja.
„Ef fram heldur sem horfir sjáum við fram á að þeir munu þurfa að taka meiri áhættu til þess að ná ásættanlegri ávöxtun. Svo er alltaf bara spurning hversu mikil sú áhætta má vera. Það getur verið mjög breytilegt eftir sjóðum, sjóðsfélagasamsetningu og hvar sjóðirnir eru staddir í sinni aldurskúrfu," segir Snædís Ögn.