Bíórýni Lestarinnar segir að í Yuli séu gerðar áhugaverðar tilraunir með hið hefðbundna kvikmyndaævisöguform sem séu virðingarverðar þó að útkoman valdi eilitlum vonbrigðum.


Marta Sigríður Pétursdóttir:

Ævi og dansferill kúbanska balletdansarans og stórstjörnunnar Carlos Acosta er viðfangsefni ævisögumyndarinnar Yuli sem sýnd er í Bíó Paradís um þessar mundir. Myndinni er leikstýrt af spænska leikstjóranum Icíar Bollaín sem er meðal annars þekkt fyrir kvikmynd sína Te Doy mis Ojos. Handritið er skrifað af Paul Laverty, eiginmanni Bollaín, en hann er einna þekktastur fyrir samstarf sitt við breska leikstjórann Ken Loach en handrit Yuli er unnið upp úr sjálfsævisögu Acosta, No Way Home

Yuli daðrar við heimildarmyndaformið vegna þess að kvikmyndin er römmuð inn af uppsetningu á danssýningu sjálfs Carlos Acosta, sem leikur sjálfan sig í myndinni, sem fjallar um ævi hans og ótrúlega sögu allt frá uppvextinum í fátækt í útjaðri Habana á Kúbu, erfiða skólagöngu í balletskólanum allt þar til hann hefur sigrað ballettheim Vesturlanda, fyrsti svarti maðurinn til þess að landa stórum hlutverkum. Carlos Acosta er nú yfirleitt nefndur í sömu andrá og Mikhail Baryshnikov og Rudolf Nureyev sem einn besti ballettdansari sögunnar.

Yuli er að einhverju leyti fjórskipt þar sem í myndinni eru fjórir Carlosar. Tveir leikarar sem túlka hann sem barn og ungan mann, dansarinn í verkinu sem rammar inn frásögnina og svo Carlos sjálfur. Myndin flakkar svo fram og til baka en einna best tekst til í þeim hluta sem fangar bernsku hans sem og þegar dansinn er látinn segja frá í stað orða. Þannig var á köflum eilítið ruglingslegt að fylgja eftir sögunni og það er sérstaklega stiklað á stóru þegar komið er að seinna hluta myndarinnar. Það er eins og kvikmyndagerðarfólkinu hafi færst of mikið í fang, og stundum er hægt að segja meira með því að gera minna. 

Það var samt sem áður ánægjulegt að horfa á myndina, dansinn skipar veigamikinn sess og það er mjög vel gert hvernig honum er fléttað saman við hefðbundna kvikmyndafrásögnina. Rauði þráðurinn í gegnum myndina er svo samband Carlosar við föður sinn sem beitti hann ofbeldi til þess að halda honum við dansinn, hann eiginlega neyðir hann til þess að fara í ballettskóla því Carlos má ekki undir neinum kringumstæðum kasta náttúrulegum danshæfileikum sínum á glæ. Faðir hans er svartur afkomandi þræla en móðir hans er hvít af spænskum uppruna og það er föðurtengingin og húðliturinn sem mótar Carlos einna mest sem streitist á móti þeirri miklu ábyrgð sem honum er gefin „að vera með alla Kúbu á herðunum“ eins og hann segir í myndinni þegar ferill hans erlendis fer á flug.

Tilfinning fyrir ofbeldinu

Þrátt fyrir að Yuli sé að nokkuð ójöfn kvikmynd og handritið gloppótt sem nær ekki að halda nægilega vel utan um frásögnina þá ná góðu sprettirnir, þá sérstaklega bernskuhlutinn og frammistaða leikaranna, dansaranna og nærvera sjálfs Carlosar að gera Yuli að góðri kvikmyndaupplifun. Myndin fangar líka vel hinar flóknu samfélagslegu aðstæður Kúbu undir stjórn Castro, einum þræði er myndin því sósíalrealískt drama, form sem er bæði handritshöfundinum Laverty og leikstjóranum Bollaín augljóslega þjált. Áhorfendur fá tilfinningu fyrir því ofbeldi sem á sér stað, innan fjölskyldna en líka samfélagsins.

Það fer ekki á milli mála að saga Carlosar Acosta og sá árangur sem hann hefur náð í alþjóðlegum heimi ballettsins er stórmerkileg en það er gríðarlega vandasamt verk að fanga stóra ævisögu í tveggja klukkustunda kvikmynd. Í Yuli eru þó gerðar áhugaverðar tilraunir með hið hefðbundna „biopic“ eða kvikmyndaævisögu form sem eru virðingarverðar þó svo að útkoman valdi eilitlum vonbrigðum, en þegar kvikmyndin nær flugi er hún jafn kraftmikil og Carlos Acosta í splittstökki á sviði Konunglega Ballettsins í London.