„Þetta snýst um að sleppa sér, að dansa og finna frelsi í dimmunni og í sjálfum sér líka,“ segir Eyrún Arnardóttir einn skipuleggjenda Dans í dimmu.

Síðustu ár hafa farið fram viðburðir undir yfirskriftinni Dansað í dimmu. Þar eru ljósin þá slökkt og gluggar birgðir og þátttakendur dansa frjálst í klukkustund í myrkrinu.

Sigurlaug Thorarensen og Eyrún Arnardóttir hafa staðið fyrir viðburðunum. Þær segja það að dansa í myrkrinu hafi ýmsa kosti. „Ég held að það sé helst að maður missir meðvitund sem maður er oft með um sjálfan sig þegar maður dansar á almannafæri.“ Þá hætti maður einnig að spegla sig í öðrum og komist í betri tengsl við sinn eigin líkama og þarfir hans. „Það er svo gott að sleppa sér alveg og finna hvað líkami þinn þarf á að halda,“ bætir Eyrún við.

Fjallað er um Dans í myrkri í lokaþætti Sporsins, laugardagskvöld 9. nóvember, þar sem Guðrún Sóley Gestsdóttir lítur á ólíkar hliðar dansins.